Hæstiréttur klofinn: Hver á Karasjok?

Samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar á norska ríkið sveitarfélagið Karasjok að …
Samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar á norska ríkið sveitarfélagið Karasjok að grunni til en allir íbúar fylkisins deila hins vegar eignarétti að fylkinu gegnum eignarhaldsfélagið FeFo sem tók við af öðru félagi, Statskog sem var í eigu norska ríkisins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Miikael Hellman

Sveitarfélagið Karasjok í Finnmörk, nyrsta fylki Noregs, er ekki bein eign tæplega tvö þúsund íbúa sem þar hafa heimilisfang sitt skráð. Þetta var naumleg niðurstaða Hæstaréttar Noregs í morgun sem var eins klofinn í afstöðu sinni og hægt var miðað við fyrirkomulagið storkammer, ellefu dómara sem dæmdu málið.

Fimm dómarar fylgdu Ingvald Falch sem ritar dóminn og er þar með svokallaður førstvoterende réttarins en fjórir snerust á sveif með Espen Bergh sem vildi dæma íbúunum eignarréttinn að þessu 5.400 ferkílómetra svæði er áralöng deilan snerist um. Féllu atkvæði því sex á móti fimm í réttinum.

Áður en málið gekk til Hæstaréttar hafði sérdómstóllinn Utmarksdomstolen, sem réttar í málum er snúast um hefðarrétt samískra íbúa svæðisins og tilkall til landsvæða á búsetusvæði þeirra, dæmt íbúunum jafnan eignarrétt að Karasjok.

Norska ríkið eigandi frá 1751

Niðurstaðan þar var þó einnig tæp, en þrír af fimm dómurum töldu íbúana fara með eignarrétt landsins, þó aðeins gegnum eignarhaldsfélagið FeFo, Finnmarkseiendommen Finnmárkkuopmodat, sem fer með stjórnsýslu 95 prósenta fylkisins.

Hæstiréttur Noregs í Ósló.
Hæstiréttur Noregs í Ósló. Ljósmynd/Wikipedia.org/Andreas Haldorsen

Þá hafði Guttorms-hópurinn svokallaði einnig uppi þá kröfu í málinu að Karasjok yrði dæmt eign nokkurra samískra stórfjölskyldna á svæðinu en þeirri kröfu vísaði Utmarksdomstolen frá við rekstur málsins.

Niðurstaða Ingvald Falch og hins tæpa meirihluta Hæstaréttar í morgun var að norska ríkið hefði eignast hið umdeilda svæði, Karasjok, þegar það varð hluti af Noregi árið 1751. Þar með væri grundvallareignarréttur í höndum ríkisins, ekki íbúa sveitarfélagsins, en allir íbúar fylkisins nytu hins vegar hinna óbeinu eignarréttinda þess svæðis sem eignarhald FeFo nær til.

Aldrei fylgt mörkum sveitarfélaga

Fyrir daga FeFo taldist Statskog, fyrirtæki í eigu norska ríkisins, grundvallareigandi nær alls fylksins, þar til Finnmarksloven voru sett, lög sem kváðu á um eignarrétt íbúanna með fulltingi og í gegnum FeFo.

Meginrök meirihlutans byggðu á kjarna þrætueplis deilunnar og um leið helstu rökum FeFo: Nýting svæðisins hefði aldrei fylgt mörkum sveitarfélaga, hún helgaðist af staðsetningu ólíkra þéttbýlissvæða og því hvernig hreindýrahjarðir samískra bænda dreifðu sér um fylkið.

„Mismunandi notendur og notendahópar hafa nýtt sér mismunandi hluta þess svæðis sem deilt er  um. Þetta má einkum ráða af þeim fjölmörgu kröfum um réttindi sem fjöldi byggðarlaga og hópa hafa sett fram um svæðið,“ segir Falch meðal annars í rökstuðningi sínum með niðurstöðu meirihlutans.

NRK

Hammerfestingen

Advokatbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert