Óljóst um afleiðingar dómsins á framboðið

Enn er óljóst hvaða afleiðingar dómurinn mun hafa á forsetaframboð …
Enn er óljóst hvaða afleiðingar dómurinn mun hafa á forsetaframboð Trumps. AFP/Mark Peterson

Refsidómur yfir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, er sögulegur fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna telst til dæmdra afbrotamanna. 

Auk þess er Trump fyrsti fyrirhugaði frambjóðandi meirihlutaflokks til forsetakosninga til að vera dæmdur glæpamaður. Trump var í gær fundinn sekur í öllum 34 ákæruliðum í máli tengdu fölsuðum viðskiptaskjölum og greiðslum til klám­mynda­leik­kon­unn­ar Stormy Daniels. BBC greinir frá.  

Ekkert í sögunni í líkingu við þá stöðu sem uppi er

Dómsuppkvaðning í málinu verður 11. júlí og getur Trump enn áfrýjað dómnum. Þar til dómur hefur verið kveðinn upp getur verið áhugavert að skoða pólitískar afleiðingar hans. Það getur þó vissulega reynst snúið þar sem staða sem þessi hefur aldrei áður komið upp í Bandaríkjunum. 

„Við lítum oft til sögunnar til að finna einhvers konar vísbendingu um hvað er að fara að gerast,“ segir Jeffrey Engel, forstöðumaður Center for Presidential History við Southern Methodist University, og bætir við:

„Það er þó ekkert í sögunni í líkingu við stöðuna sem nú er uppi.“

Margir taldir endurskoða ákvörðun sína 

Fyrr á árinu tryggði Trump sér útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins og áætlað er að hann verði krýndur á flokksþingi nokkrum dögum eftir dómsuppkvaðningu. 

Kannanir benda til þess að Trump eigi góða möguleika gegn Joe Biden Bandaríkjaforseta, en Trump er með forskot í mörgum af þeim helstu ríkjum sem talin eru munu skera úr um niðurstöðu kosninganna. 

Kannanirnar benda þó jafnframt til þess að sakfelling Trump geti breytt öllu hvað þetta varðar. Það sýndu sérstaklega kannanir sem gerðar voru meðan á prófkjöri repúblikana stóð í vetur, en niðurstaða tveggja þeirra var sú að 16% stuðningsmanna Trumps hygðust endurskoða ákvörðun sína ef til þess kæmi að hann yrði sakfelldur. 

Raunverulegur dómur verði kveðinn upp í nóvember 

Þess ber þó að geta að þegar umræddar kannanir voru gerðar beindust fjögur sakamál gegn Trump og því byggðu þær einungis á tilgátum fólks um hvað yrði. Eitt þessara mála var ákæra á hendur Trump sem tengdist meintu samsæri um að hrekja niðurstöður kosninganna árið 2020. Annað var meðhöndlun hans á leyniskjölum sem hann hafði í fórum sínum eftir að hafa yfirgefið Hvíta húsið. 

Nú þegar dómur í umræddu sakamáli liggur fyrir segir Trump kjósendur geta dæmt á grundvelli raunverulegrar sannfæringar. 

„Hinn raunverulegi dómur verður kveðinn upp af fólkinu þann 5. nóvember,“ sagði hann um leið og hann yfirgaf réttarsalinn. 

Kjósendur verði farnir að hugsa um annað í haust 

Doug Schoen, fræðimaður sem starfaði með Bill Clinton forseta demókrata og óháðum borgarstjóra New York-borgar, Michael Bloomberg, segir að bandarískir kjósendur kunni að finna minna fyrir þöggunarmálinu nú en áður, vegna þess að það tengist atburðum sem áttu sér stað fyrir átta árum.

„Þótt það sé ekki frábært að vera dæmdur fyrir glæp mun hugur kjósenda í nóvember vera á verðbólgunni, landamærunum í suðri, samkeppni við Kína og Rússland og þeim fjármunum sem hefur verið eytt í Ísrael og Úkraínu,“ sagði hann. 

„Ég held að þetta muni hafa áhrif og skaða framboð hans“

Lítils háttar lækkun á fylgi Trumps getur þó verið nóg til að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna enda lítið sem skilur Trump og Biden að. 

„Ég held að þetta muni hafa áhrif og skaða framboð hans,“ segir Ariel Hill-Davis, stofnandi Women for Progress-hóps Repúblikanaflokksins, sem hefur reynt að færa flokkinn fjær Trump.

Hún segir yngri kjósendur, þá sem eru háskólamenntaður og þá sem búa í úthverfum borga hafa haft áhyggjur af framkomu Tumps og nálgun hans við stjórn flokksins. 

„Þessi kjósendur eru mjög hikandi við að komast aftur í takt við flokkinn undir forystu Donalds Trumps,“ segir hún og bætir við. 

„Dómurinn mun ýta enn frekar undir þessar áhyggjur. Margir af fremstu mönnum flokksins sátu þó réttarhöldin til að sýna hollustu sína við frambjóðanda flokksins.“

Mike Johnson þingforseti sagði daginn skammarlegan fyrir sögu Bandaríkjanna. „Þetta var einungis pólitísk æfing, ekki lögleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka