Trump hyggst áfrýja

Trump á blaðamannafundi.
Trump á blaðamannafundi. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fór um víðan völl á blaðamannafundi nú síðdegis. Hann lýsti áhyggjum af flóttamannaflaumi til landsins, sagðist í raun ekki hafa gert neitt rangt og státaði sig af sex prósent meira fylgi samkvæmt skoðanakönnun Daily mail. Þá tilkynnti hann einnig að hann myndi áfrýja niðurstöðu gærkvöldsins. 

Í gærkvöldi var Trump fundinn sekur í 34 ákæruliðum vegna föls­un­ar viðskipta­skjala og greiðslna til klám­mynda­leik­konu. Lítið sem ekkert hafði heyrst frá Trump fyrir utan stutta ræðu við réttarsal að réttarhöldum loknum. 

 

Biden á bakvið réttarhöldin

Boðað var til blaðamannafundar klukkan 15:00 að íslenskum tíma í Trump-turni í New York borg vegna niðurstöðunnar. Talaði Trump þar í um hálftíma en svaraði ekki spurningum blaðamanna. 

Á fundinum fór hann ófögrum orðum um dómarann í málinu, Merchan, sagði hann spilltan og ósamkvæman sjálfum sér og sakaði hann um að „krossfesta vitni.“

Enginn var þó óhulltur en hann gagnrýndi einnig saksóknarann í málinu, Alvin Bragg og forseta Bandaríkjanna, Joe Biden. Þá sagði hann Biden vera á bakvið þessi ósanngjörnu réttarhöld og að hann væri „versti forsetinn í sögu landsins.“

39 milljónir hafi safnast

Þó virtist Trump nú geta fundið sína ljósu punkta og sagði frá því að safnast hefðu 39 milljónir bandaríkjadala í smáframlögum til forsetaframboðsins frá því að ákvörðun gærkvöldsins varð ljós. Þar að auki hafi Daily Mail framkvæmt skoðanakönnun og sagt hann bæta við sig um sex prósentustigum. 

Að lokum tilkynnti hann að hann skyldi áfrýja ákvörðun kviðdómsins og að hann myndi vinna að því að gera Bandaríkin „betri en nokkurn tímann áður.“

Horfa má á ræðuna í heild sinni í myndskeðinu hér fyrir neðan, en ræðan hefst þegar um fjórir tímar eru liðnir af útsendingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert