Skotbardagi á bar í Pittsburgh

Til skotbardaga kom milli gesta á barnum Ballers Hookah Lounge …
Til skotbardaga kom milli gesta á barnum Ballers Hookah Lounge and Cigar Bar í Penn Hills í Pittsburgh í lá tvennt í valnum að þeirri hildi afstaðinni. Ljósmynd/Wikipedia.org/Phillq23

Þrennt lét lífið og á fjórða tug hlutu misalvarleg sár í tveimur skotárásum í Bandaríkjunum aðfaranótt sunnudags.

Í þeirri fyrri lét einn maður lífið og 25 særðust í bænum Akron í Ohio þar sem árásarmaður hóf skothríð á götu upp úr miðnætti að staðartíma en þar stóð þá götuveisla sem hæst. Enginn hafði verið handtekinn síðast þegar fréttist en í Akron lést 27 ára gamall maður í árásinni.

Ekki liðu nema um tvær klukkustundir frá árásinni í Akron þar til í brýnu sló á bar í úthverfinu Penn Hills í Pittsburgh í Pennsylvania-ríki þar sem tvennt lá í valnum, maður og kona, og sjö eru sárir, einn þar af lífshættulega.

1,2 skotárásir á dag

Greindu sjónarvottar frá því, eftir sem AP-fréttastofan hefur eftir, að til orðahnippinga hefði komið milli gesta, þá handalögmála og að lokum hefðu nokkrir deiluaðila dregið upp skotvopn og beitt þeim með fyrrgreindum afleiðingum.

Það sem af er ári hafa 189 fjöldaskotárásir (e. mass shootings) verið gerðar í Bandaríkjunum samkvæmt vefsíðunni Gun Violence Archive sem skilgreinir fjöldaskotárás þannig að minnst fjórir verði fyrir skotum – hvort sem þeir láta lífið eða særast – að árásarmanninum eða -mönnunum undanskildum.

Eru árásirnar þar með að meðaltali 1,2 dag hvern árið 2024 og er skemmst að minnast árásar í Los Angeles 5. maí þar sem sjö hlutu áverka, fjórir lífshættulega, og annarrar 30. apríl í Charlotte í Norður-Karólínu þar sem þrír lögreglumenn létu lífið er þeir héldu í útkall í íbúð þar sem tilkynnt hafði verið um skothvelli. Sá sem grunaður var um þá árás lést sjálfur á vettvangi.

AP

Times Now

ABC News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert