Lögfræðiaðstoð fyrir njósnara

Áróðurinn sem Pravfond greiðir fyrir má rekja beint til Pútíns …
Áróðurinn sem Pravfond greiðir fyrir má rekja beint til Pútíns forseta. „Þetta er boðskapur Pútíns,“ segir Kari Aga Myklebost, prófessor við Háskólann í Tromsø, við NRK. AFP/Alexander Ryumin

Rússneskur njósnasjóður, Pravfond, er nýttur til þess að fjármagna rússneskan áróður og brot gegn viðskiptabanni landsins um alla Evrópu. Þetta sýna gögn sem lekið var til norska ríkisútvarpsins NRK.

Hefur fé úr sjóði þessum, eftir því sem NRK greinir frá, verið nýtt til þess að greiða fyrir lögfræðiaðstoð til handa njósnurum og fjármagna starf áhrifavalda ýmiss konar um gervalla Evrópu, það sem NRK kallar á norsku påvirkningsoperasjoner.

Meðal þeirra sem notið hafa lögfræðiaðstoðar vegna refsimála gegn þeim eru „Kaupmaður dauðans“, en bak við það viðurnefni býr vopnasalinn Viktor Bout, og Vadim Krasíkov sem hlaut dóm í Þýskalandi fyrir að myrða tjetjenskan aðskilnaðarsinna í dýragarðinum í Berlín árið 2019.

Vadim Krasíkov hlaut dóm í Þýskalandi fyrir að myrða tjetjenskan …
Vadim Krasíkov hlaut dóm í Þýskalandi fyrir að myrða tjetjenskan aðskilnaðarsinna í Berlín árið 2019. Ljósmynd/Historica.fandom.com

Skjölin ekta að mati leyniþjónusta

Framangreint er þó aðeins dropi í hafið, sjóðurinn hefur greitt ritstjórnum tímarita, fjármagnað ráðstefnur og beinlínis greitt fyrir dreifingu falsfrétta og villandi upplýsinga en heitið Pravfond er aðeins stuttnefni. Á ensku heitir sjóðurinn formlega „The Foundation for Support and Protection of the Rights of Compatriots Living Abroad“ eða „Sjóður til stuðnings og verndar réttindum föðurlandsvina erlendis“ sem segir allt sem segja þarf.

Var fjölda skjala um sjóðinn, um 30 talsins, lekið til NRK, danska ríkisútvarpsins DR og þrettán annarra stórra evrópskra fjölmiðla. Lekinn kom frá heimildarmanni evrópskrar leyniþjónustu ótilgreinds ríkis en leyniþjónustur tveggja annarra ríkja hafa kveðið upp úr um falsleysi skjalanna. Þau eru ekta.

Framkvæmdastjóri sjóðsins í Noregi er Vladimír Posdorovkin sem hefur sterk tengsl við rússnesku leyniþjónustustofnunina SVR og hefur hann greitt aðilum í Noregi úr sjóðnum.

„Þetta er boðskapur Pútíns“

Fleiri sérfræðingar en leyniþjónustufólk hafa skoðað skjölin. Einn þeirra er Kari Aga Myklebost, prófessor við Háskólann í Tromsø, sem telur þann boðskap, sem sjóðurinn miðlar um Evrópu, koma rakleiðis frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

„Á því leikur enginn vafi. Þetta er boðskapur Pútíns,“ segir Myklebost.

Aðalstöðvar sjóðsins láta ekki mikið yfir sér. Þær eru í lítt áberandi byggingu í nágrenni við rússneska utanríkisráðuneytið í Moskvu. Innan veggja hennar er haldið í stjórnartauma sem teygja sig um alla Evrópu.

Eftir því sem lesa má í skjölunum gengur starfsemin vel. Skjólstæðingar og „Viðskiptavinir“ Pravfond ná að hafa áhrif í álfunni hvað sem viðskiptabanni og banni við rússneskum áróðursfréttum líður. Birtir NRK kort sem sýnir ýmsa starfsemi sjóðsins í rúmlega 40 löndum.

Kort sem sýnir starfsemi Pravfond um allan heim, því dekkri …
Kort sem sýnir starfsemi Pravfond um allan heim, því dekkri sem liturinn er þeim mun umfangsmeiri er starfsemin sem vel er haldið utan um að mati bresks sagnfræðings sem er sérfræðingur í Rússlandi Pútíns. Kort/NRK

Vel skipulögð herferð

Þá má beinlínis lesa um greiðslur til eigenda fjölda fjölmiðla í skjölunum leknu sem eru fyrir að birta umfjöllun hliðholla Rússlandi með það fyrir augum að milda almenningsálitið eftir innrás Pútíns í Úkraínu.

„Eitt af því sem slær mig er hve útbreitt þetta [starfsemi Pravfond] er um öll Vesturlönd og utan Evrópu,“ segir Mark Galeotti, breskur sagnfræðingur og sérfræðingur í Rússlandi Pútíns, í samtali við NRK. „Þetta er einfaldlega vel skipulögð herferð,“ er mat sagnfræðingsins.

Stjórnendur sjóðsins þegja þunnu hljóði yfir spurningum NRK og annarra fjölmiðla. Áðurnefndur Posdorovkin, framkvæmdastjóri Noregsdeildarinnar, segir heldur ekki orð.

Senn líður að kosningum til Evrópuþingsins. Samkvæmt skjölunum leknu eru Evrópuþingmenn nokkurra landa á greiðslulista Pravfond.

NRK

VG

The Guardian

Le Monde (á ensku)

Kyiv Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert