Nigel Farage gefur kost á sér og leiðir flokk

Nigel Farage mun verða nýr formaður Reform UK og gefur …
Nigel Farage mun verða nýr formaður Reform UK og gefur kost á sér í komandi þingkosningum. AFP

Nigel Farage hyggst gefa kost á sér í þingkosningum Bretlands sem haldnar verða 4. júlí.

Farage tilkynnti áformin í dag á blaðamannafundi en hann gefur kost á sér í þingsæti Clacton-on-Sea, en íbúar kjördæmisins eru afar hlynntir Brexit. Mun hann sömuleiðis fara fram sem formaður Reform UK-flokksins. 

Reform UK var stofnað árið 2018 og er hægrisinnaður popúlistaflokkur sem beitti sér fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 

Hafði Farage sagt aðeins örfáum dögum áður að hann hygðist ekki gefa kost á sér í kosningunum, en á blaðamannafundinum sagði hann að sér hefði snúist hugur.

Gæti orðið Íhaldsflokkinum að falli

„Ég get ekki valdið öllum þessum milljónum manns vonbrigðum,“ sagði Farage og vísaði þar til stuðningsmanna sinna í fyrri kosningum og Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni. 

Framboð Farage setur óneitanlegan þrýsting á forsætisráðherra landsins, Rishi Sunak, og Íhaldsflokkinn, sem má vart við því að missa atkvæði til annars flokks á hægri vængnum.

Reform UK mælist með um 11 prósenta fylgi eins og er sem kæmi verulega niður á Íhaldsflokknum ef kosið væri núna, enda myndi flokkurinn missa þingsæti sem hann þyrfti til að sigra í kosningunum.

„Ég tel okkur vel geta fengið fleiri atkvæði en Íhaldsflokkurinn. Þeir eru á barmi þess að falla,“ sagði Farage. 

Íhaldsflokkurinn og Rishi Sunak mega ekki við því að missa …
Íhaldsflokkurinn og Rishi Sunak mega ekki við því að missa þingsæti til Reform UK. AFP

Telur Verkamannaflokkinn sigurstranglegan

Kvaðst hann sömuleiðis fullviss um að Reform UK myndi stela atkvæðum frá Verkamannaflokki Bretlands, en hann teldi engu að síður nokkuð öruggt að Verkamannaflokkurinn myndi sigra í  næstu kosningum. 

„Það sem ég er í raun að kalla eftir, og hyggst leiða, er pólitísk uppreisn. Að við snúum baki við þessu óbreytta ástandi,“ sagði Farage.

„Ekkert í þessu landi virkar lengur. Við erum á niðurleið.“

Farage hefur áður gefið kost á sér, nánar tiltekið sjö sinnum, en hefur ekki tekist að ná sæti á þingi til þessa, en náði aftur á móti sæti á Evrópuþingi fyrir hönd Brexit-flokksins á sínum tíma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert