25 ára karlmaður skotinn til bana í Gautaborg

Sænska lögreglan að störfum. Mynd úr safni.
Sænska lögreglan að störfum. Mynd úr safni. AFP

25 ára karlmaður var skotinn til bana í bílastæðahúsi við torgið Selma Lagerlöfs í Hisingen í Gautaborg í gærkvöldi. Hann er sagður hafa verið þekktur rappari. 

Þegar lögreglan kom á vettvang klukkan 22.40 að staðartíma, eða klukkan 20.40 að íslenskum tíma, lá maðurinn þar eftir að hafa verið skotinn. Hann var fluttur á slysadeild þar sem hann lést af sárum sínum, að því er Aftonbladet greindi frá.

Að sögn Göteborgs-Posten var maðurinn þekktur rappari. Orðrómur um dauða hans hefur dreifst um sænska samfélagsmiðla.

Rannsókn stendur yfir

Lögreglan rannsakar málið og leitar að einum eða fleiri sökudólgum. Enginn er grunaður, enn sem komið er, að sögn lögreglunnar.

Hún segir að meira en einu skoti hafi verið hleypt af á vettvangi. Vitni sáu bíl yfirgefa staðinn skömmu eftir skotárásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert