Ákvörðun um varaforsetaefni nálgast

Donald Trump íhugar nú sterklega þessa þrjá menn. Frá vinstri: …
Donald Trump íhugar nú sterklega þessa þrjá menn. Frá vinstri: Doug Burgum, J.D. Vance, Marco Rubio. Samsett mynd/AFP/David Dee Delgado/Andrew Harnik/Michael M. Santiago

Kosningateymi Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur beðið nokkra menn um að afhenda sér gögn. Þrír þeirra eru taldir líklegt varaforsetaefni Trumps.

Samkvæmt heimildum bandaríska fjölmiðilsins ABC voru Doug Burgum, ríkisstjóri Norður-Dakóta, Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída-ríki, og J.D. Vance, öldungadeildarþingmaður frá Ohio-ríki, beðnir um ítarleg gögn.

Fleiri hafa verið beðnir um gögn en þó ekki jafn ítarleg og fyrrnefndir menn voru beðnir um. ABC telur þetta benda til þess að mennirnir þrír séu efstir á lista um hugsanleg varaforsetaefni Donalds Trumps. 

Landsfundur í júlí

Eins og fyrr segir þá hafa fleiri verið beðnir um að afhenda kosningateyminu gögn. Þar á meðal eru Tim Scott, öldungadeildarþingmaður frá Suður Karólínu, fulltrúadeildarþingmennirnir Byron Donalds og Elise Stefanik, og Dr. Ben Carson.

Óljóst er hversu ítarleg gögn þau hafa þurft að afhenda.

Þó að Trump hafi ekki enn gefið til kynna hvern hann muni velja sem varaforsetaefni sitt hefur hann sagst ætla að tilkynna um það þegar nær dregur landsfundi Repúblikana, sem hefst 15. júlí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert