Fico kennir andstæðingum um árásina

Fico telur að ef haldi fram sem horfir verði önnur …
Fico telur að ef haldi fram sem horfir verði önnur árás af svipuðu tagi. AFP/David Gannon

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, segir pólitíska andstæðinga hafa alið á hatri sem leiddi til banatilræðisins sem honum var sýnt.

Fico ávarpaði landsmenn í myndskeiði sem hann birti á Facebook-síðu sinni. Þar kvaðst hann geta hafið störf að nýju í júní.

Hinn 41 árs gamli Juraj Cintula skaut Fico fjórum sinnum úr stuttu færi þann 15. maí þegar hann var að heilsa stuðningsmönnum eftir ríkisstjórnarfund. 

Kennir stjórnarandstöðunni um

„Ég ber enga heift í garð aðkomumannsins sem skaut mig,“ sagði Fico í ávarpinu. 

„Ég fyrirgef honum og leyfi honum að gera upp við sig hvað hann gerði og af hverju hann gerði það.“

Meginþorri ávarpsins fór í að gagnrýna stjórnarandstöðu Slóvakíu. Fico sagði Cintula ekki vera vitfirring heldur hefði illska og pólitískt hatur stjórnarandstöðunnar í landinu hvatt hann til að fremja ódæðið. 

„Stjórnarandstaðan hefur ekki gert sér grein fyrir því hvernig óvægin og hatrömm stjórnmál þeirra hafa leitt samfélagið til þessa. Það var einungis tímaspursmál þar til að eitthvað af þessu tagi myndi gerast,“ sagði hann og hélt áfram: 

„Ef svo heldur fram sem horfir mun hryllingurinn hinn 15. maí endurtaka sig og fórnarlömbin vera fleiri. Þar er enginn vafi í mínum huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert