Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur staðfest að karlmaður sem lést þann 24. apríl í Mexíkó hafi látist af völdum H5N2-afbrigðis af fuglaflensu og hafi sömuleiðis verið fyrsta staðfesta tilfelli þess að maður smitist af veirunni.
Reuters greinir frá.
Karlmaðurinn lést 24. apríl en WHO segir að um sé að ræða fyrstu staðfestu sýkinguna meðal manna þegar litið er til þessa afbrigðis sjúkdómsins.
Í aðdraganda andlátsins er maðurinn sagður hafa verið andstuttur og fengið niðurgang. Þá var hann með hita og fann fyrir almennri ógleði.
WHO segir að dæmi séu um að A5-fuglaflensa greinist í alifuglum en ekkert bendir til þess að maðurinn hafi verið í snertingu við alifugla áður en hann smitaðist.
Hann hafði þó verið heilsuveill áður en hann smitaðist og hafði verið rúmliggjandi í þrjár vikur vegna annarra veikinda áður en hann fór að finna fyrir einkennum fuglaflensunnar.