Segir sakfellingu Trumps pólitíska

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir vopnasendingar til Úkraínu vera hættulega þróun.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir vopnasendingar til Úkraínu vera hættulega þróun. AFP/Alexander Kazakov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir það öllum ljóst að sakfelling Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sé pólitísk. 

Þetta sagði Pútín á blaðamannafundi fyrr í dag en hann ræddi þar ýmislegt.

Hann sagði meðal annars að vopnasendingar Vesturlanda til Úkraínu væru hættulegar og að það skipti litlu fyrir Rússa hver ynni komandi forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. 

„Þannig séð skiptir það engu máli“

„Það er öllum heiminum ljóst að með því að sakfella Trump sé verið að beita fyrir sér dómskerfinu í pólitískum átökum innbyrðis,“ sagði Pútín.

Spurður hvaða máli það skipti fyrir samband Rússlands og Bandaríkjanna hvort Joe Biden Bandaríkjaforseti eða Trump hljóti kjör í komandi kosningum sagði Pútín: „Þannig séð skiptir það engu máli.“

Einn Rússi fyrir hverja fimm Úkraínumenn

Þá sagði hann vopnasendingar Vesturlanda til Úkraínu vera hættulega þróun:

„Að flytja vopn til átakasvæða er alltaf slæmt. Það er illu verr þegar þeir sem flytja vopnin hafa einnig tök á að stýra þeim. Þetta er mjög alvarleg og hættuleg þróun.“

Pútín neitaði að tjá sig um fjölda Rússa sem hefðu fallið í stríðinu í Úkraínu en sagði einn Rússa falla fyrir hverja fimm Úkraínumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert