Sænski rapparinn C. Gambino var myrtur í skotárás í Gautaborg í gærkvöldi. Árásin er talin tengjast gengjastríði í borginni.
Mbl.is greindi frá árásinni í morgun en síðan hefur sænska lögreglan staðfest að hinn látni er rapparinn C. Gambino en raunverulegt nafn hans er Karar Ramadan. Tónlist C. Gambino er vinsæl í Svíþjóð en hann var útnefndur rappari ársins þar í landi í síðasta mánuði.
Sænska lögreglan hefur sett af stað morðrannsókn en enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið.
Morðið tengist gengjaátökum segir talskona sænsku lögreglunnar og bætir við að rapparinn hafi verið góðkunningi lögreglunnar.
Síðasta lagi C. Gambino, Sista Gang, sem kom út á föstudaginn hefur verið streymt 700 þúsund sinnum á streymisveitunni Spotify en alla jafna hlusta um milljón manns á lög rapparans á mánuði.
„Hann var einn sá besti í sænsku hiphop-senunni,“ segir sænski rappsérfræðingurinn Peter Hallen og bætir við að fráfall hans sé „þungt högg fyrir rappsenuna í Gautaborg og Svíþjóð allri“.
„Það sem er sérstaklega sorglegt er að nýverið hefur hann fært sig frá því að fjalla bara um myrkt glæpadót yfir í að fjalla um sambönd og tilfinningar,“ segir Hallen.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rappari lætur lífið í tengslum við gengjaofbeldi í Svíþjóð en árið 2021 var rapparinn Einar skotinn til bana í gengjaátökum í höfuðborginni Stokkhólmi.