Fyrsti maðurinn sem smitaðist af H5N2-afbrigði fuglaflensu lést ekki af völdum veirunnar að sögn talsmanns Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Maðurinn lést í Mexíkó 24. apríl sl. og sagði Christian Lindmeier, talsmaður WHO að orsakir andlátsins hefðu verið margþættar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tilkynnti á miðvikudag um að rannsóknir hafi staðfest sýkingu af völdum H5N2-afbrigðisins í manninum. Rannsóknum er þó ekki lokið.
Heilbrigðisráðuneyti Mexíkó tilkynnti að maðurinn hafi verið 59 ára gamall og hafi barist við langvinnan nýrnasjúkdóm, sykursýki tvö og of háan blóðþrýsting til lengri tíma.
Hann hafi verið rúmfastur í þrjár vikur áður en einkenni fuglaflensunnar komu fram 17. apríl. Þá hafi hann verið kominn með hita, mæði, niðurgang, ógleði og almennt liðið illa.
Maðurinn var þá fluttur á sjúkrahús í Mexíkóborg viku síðar og lést hann þann sama dag.
„Andlátið er margþætt andlát, ekki andlát sem rekja má til H5N2,“ sagði Lindmeier við blaðamenn í Genf í Sviss í dag.
Í líki mannsins greindist inflúensa og aðrar veirur, þar á meðal H5N2, að sögn Lindmeiers.