Réðust aftur á Nuseirat-búðirnar

Starfsmaður UNRWA virðir fyrir sér stórskemmda skólabyggingu stofnunarinnar í Nuseirat-flóttamannabúðunum …
Starfsmaður UNRWA virðir fyrir sér stórskemmda skólabyggingu stofnunarinnar í Nuseirat-flóttamannabúðunum í morgun eftir aðra árásina á hana en tugir féllu í fyrri árásinni í gær. AFP/Eyad Baba

Talsmenn Ísraelshers kveðast í dag hafa fellt níu „hryðjuverkamenn“ í annarri loftárás á Nuseirat-flóttamannabúðirnar, fimm kílómetra norðaustur af Deir-al-Balah, um miðbik Gasasvæðisins, en tugir létust í fyrri árás á búðirnar í gær þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa rekið skóla.

Hamas-samtökin palestínsku hafa enn ekki tekið afstöðu til nýjustu tillögu um vopnahléssamkomulag milli þjóðanna sem runnin er undan rifjum bandarískra stjórnvalda. Ísraelar hafa ekki tekið tillögunni fjarri en segja þó forgangsmál að uppræta Hamas-samtökin með öllu.

António Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, fordæmdi árásina í gær og kallaði hana „hrottalega“ en frá egypska utanríkisráðuneytinu barst yfirlýsing um að Ísraelar hefðu með vitund og vilja ráðist á skóla á vegum Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, UNRWA.

Herskip og leyniskyttur

Ísraelsk stjórnvöld ásaka Hamas-liða um að skáka í því skjóli að nýta skóla, sjúkrahús og aðra borgaralega innviði undir starfsemi aðgerðastjórnstöðva samtakanna – nokkuð sem talsmenn Hamas hafa svarið af sér.

Auk loftárása beittu Ísraelsmenn herskipum sem skutu flugskeytum að höfnum palestínskra sjómanna á svæðinu vestur af Gasaborg og talsmenn Rauða hálfmánans, systursamtaka Rauða krossins í múslimaríkjum, kváðu leyniskyttur austur af Deir-al-Balah skjóta þar á almenna borgara.

Væringarnar milli Ísraela og Palestínumanna hafa vakið viðsjár víða um Mið-Austurlönd með þeim afleiðingum að átök hafa risið milli bandamanna Ísraels annars vegar og hins vegar vígahópa sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran sem styður Hamas-samtökin með ráðum og dáð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert