Bandaríkjaher skaut niður fjóra dróna og tvö flugskeyti sem Hútar í Jemen skutu í átt að flutningaskipum á Rauðahafi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá yfirstjórn Bandaríkjahers í Miðausturlöndum (CENTCOM).
Árásir Húta áttu sér stað á síðasta sólarhring en enginn særðist, þar sem tókst að skjóta drónana og flugskeytin niður. Bandaríkjamenn sökktu þar að auki bát á valdi Húta.
Hútar, sem studdir eru af klerkastjórninni í Íran, hafa ítrekað ráðist á almenn flutningaskip á Rauðahafi til stuðnings hryðjuverkasamtakanna Hamas sem eiga nú í stríði við Ísraelsher á Gasaströndinni.
Árásirnar eru taldar veruleg öryggisógn þar sem er að ræða mikilvæga alþjóðlega siglingaleið. Bandaríkin og Bretland hafa síðan í janúar gert árásir sem miða að því að draga úr getu Húta til að ráðast á flutningaskip.
Árásir Húta hafa valdið því að tryggingakostnaður hefur hækkað verulega fyrir skip sem sigla um Rauðahafið og þar af leiðandi hafa mörg skipafyrirtæki ákveðið að nýta aðrar og lengri siglingaleiðir til að forðast árásirnar.