Árásin líklega ekki vegna pólitískra hvata

Mette var kýld í Kaupmannahöfn í gær.
Mette var kýld í Kaupmannahöfn í gær. AFP/Ida Marie Odgaard/Ritzau Scanpix

Ekki er talið að svo stöddu að karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa ráðist á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í gær hafi gert það vegna pólitískra hvata.

Þetta sagði saksóknarinn Taruh Sekeroglu við blaðamenn í dag.

„Það er ekki okkar tilgáta að hér sé pólitískur hvati að baki. En það er eitthvað sem lögreglan mun að sjálfsögðu rannsaka,“ sagði Sekeroglu.

Ölvaður og undir áhrifum fíkniefna

Karlmaðurinn er 39 ára gamall Pólverji og var hann leidd­ur fyr­ir dóm­ara fyrr í dag í Fredriks­berg í Kaup­manna­höfn.

Við ákvörðun á gæsluvarðhaldi kynntu stjórnvöld minnisblað frá lækni sem segir að karlmaðurinn hafi líklega verið undir áhrifum fíkniefni og ölvaður þegar hann var handtekinn.

Maðurinn hef­ur verið úrskurðaður í gæslu­v­arðhald til 20. júní.

Man ekki eftir því hvað hann var að gera

Karlmaðurinn hefur ekki játað á sig verknaðinn. 

Danska ríkisútvarpið greinir frá því að í réttarsalnum hafi saksóknarinn spurt karlmanninn hvort að hann myndi eftir því hvað hann hafði verið að gera á tíma árásarinnar.

„Til að vera alveg hreinskilinn, þá ekki mjög miklu,“ svaraði karlmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert