Ísraelsher hefur bjargað fjórum gíslum úr haldi hryðjuverkasamtakanna Hamas. Gíslarnir hafa verið í haldi á Gasa frá hryðjuverkaárás Hamas á tónlistarhátíð í Ísrael þann 7. október.
The Times of Israel greinir frá því að þau Noa Argamani, Almog Meir Jan, Andrey Kozlov, og Shlomi Ziv séu við góða heilsu. Þau verða þó öll flutt á sjúkrahús til frekari skoðunar.
Ísraelsher gerði húsleitir samtímis á tveimur stöðum miðsvæðis á Gasa. Á einum staðnum var Argamani bjargað og á hinum staðnum var Meir Jan, Kozlov og Ziv bjargað.
Á meðan aðgerðin stóð yfir voru gerðar loftárásir á Gasa. Í kjölfar þeirra greindu heilbrigðisyfirvöld á Gasa frá „miklu mannfalli“.