Bjó til „skipulagsskjal“ fyrir morðin

Rex Heuermann er sextugur arkitekt. Hann neitar sök.
Rex Heuermann er sextugur arkitekt. Hann neitar sök. AFP

Á meðal þess sem má finna í málsgögnum dómsmálsins yfir meinta raðmorðingjanum Rex Heuermann er „skipulagsskjal“ þar sem má finna leiðbeiningar um hvernig eigi að velja, drepa og losa sig við lík fórnarlamba. 

CNN greinir frá því að Word–skjalið hafi verið búið til árið 2000. Því hafi síðan verið breytt af og til yfir nokkurra ára tímabil. Skjalið fannst á hörðum diski í kjallara á heimili Huermann í New York-ríki, sem hann deildi með eiginkonu sinni, Ásu Guðbjörgu Ellerup, og börnum þeirra. 

Í hástöfum var ritað hvernig ætti að búa um lík til flutnings, atriði til að koma í veg fyrir handtöku og hvernig ætti að fjarlægja DNA af sönnunargögnum. 

Upplýsingar um „skipulagsskjalið“ voru gerðar opinberar á fimmtudag þegar Heuermann lagði fram umsókn um lausn gegn tyggingu eftir að hann var ákærður fyrir tvö morð til viðbótar við þau fjögur sem hann var ákærður fyrir síðasta sumar. 

Eins og leikar standa er Heuermann ákærður fyrir að myrða sex konur í um þriggja áratuga skeið.

Aldrei séð annað eins

Á fimmtudag neitaði Heuermann að hafa myrt Jessicu Taylor árið 2003 og Söndru Costilla árið 1993. 

Saksóknarar greindu þá nánar frá „skipulagsskjalinu“ og sögðu að hann hefði notað það til þess að skipuleggja morðin í smáatriðum. 

„Ég hef aldrei séð skriflegt skjal líkt þessu,“ sagði Raymond Tierney, saksóknari í Suffolk–sýslu. 

Skjalið fannst eftir að rannsakendur grandskoðuðu meira en 350 raftæki sem fundust á heimili Heuermann. Samkvæmt umfjöllun CNN var skjalið fullt af stafsetningarvillum.

„Því hafði verið eytt og við notuðum sérstakar rannsóknaraðferðir til þess að endurheimta það,“ sagði Tierney. 

DNA og skjalið

Í skjalinu mátti sjá fyrirsagnir líkt og „búnaður“ og „vandamál“. DNA var efst á lista undir síðarnefndu fyrirsögninni. 

DNA og skjalið eru helstu sönnunargögnin í yfirvofandi réttarhöldum yfir Heuermann. 

„Staðreyndin er sú að hann reyndi að losa sig við þetta skjal en það fannst samt í minni tölvunnar. Það er svo sannarlega að fara hitta – ásamt DNA – naglann á höfuðið,“ sagði Casey Jordan, afbrota-, atferlis- og lögfræðingur, í samtali við CNN. 

Hann bætti við að þessi tvö sönnunargögn eigi eftir að gera verjendum Heuermann verulega erfitt fyrir. 

Húsleit var gerð á heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann …
Húsleit var gerð á heimili Ásu Ellerup og Rex Heuermann síðasta sumar. AFP/Yuki Iwamura

Í skjalinu mátti einnig finna kafla um „líkundirbúning“ þar sem útskýrt var í smáatriðum hvernig ætti að þrífa, búta niður og færa til lík. 

Annar hluti var titlaður „eftir atburð“ þar sem mátti finna lista yfir nauðsynleg verkefni til þess að koma í veg fyrir handtöku, þar á meðal að útbúa fjarvistarsönnun. 

Setti upp tímalínu

Einn kafli fjallaði um „undirbúning fyrir undirbúning“. Þar var meðal annars minnst á að athuga hvort eftirlitsmyndavélar væru nærri. 

Þar á eftir kom „undirbúningurinn“ þar sem sett var upp tímalína fyrir það sem þyrfti að gerast áður en fórnarlamb var myrt. Meðal annars var minnst á að smíða borð með „þverstöng“ (e. cross bar), svo að borðið gæti tekið við þungum hlutum. 

Frá húsleitinni á heimili Heuermann.
Frá húsleitinni á heimili Heuermann. AFP/Michael M. Santiago

Lifði í dýrð verka sinna

Í „eftir atburð“-hluta skjalsins mátti finna atriði líkt og að skipta um dekk á bifreið og að búa til fjarvistarsönnun til þess að koma í veg fyrir handtöku. 

Þá var greint frá því í skjalinu hvernig ætti að losa sig við lík, meðal annars með því að eyða húðflúrum og öðrum líkamlegum auðkennum. Heuermann á að hafa „eytt“ húðflúri eins fórnarlambsins með beittum hlut. 

Einn kafli skjalsins nefndist: „Atriði til þess að muna.“ Virðist hann vera byggður á atriðum sem Heuermann lærði af fyrri morðum. Þar var meðal annars mælt með sverara reipi þar sem léttari reipi „slitnuðu undir álagi er þau voru strekkt“.

Scott Bonn, afbrotafræðingur og rithöfundur, sagði í samtali við CNN að „skipulagsskjalið“ sýndi löngun Heuermanns til þess að lifa í „dýrð verka sinna“. Þá sagði hann að skjalið gæti orðið það sem yrði Heuermann að falli. 

„Hinar fjórar í Gilgo“

Heuermann var handtekinn í júlí nærri skrifstofu sinni á Manhattan en hann starfaði sem arkitekt. 

Hann var ákærður fyrir morð á þremur konum. Lík þeirra fundust bundin með beltum eða límböndum og þær vafðar inn í poka á Gilgo–strönd árið 2010. 

Í janúar var hann síðan ákærður fyrir fjórða morðið. 

Fórnarlömbin fjögur, Melissa Barthelemy, Megan Waterman, Amber Costello og Maureen Brainard-Barnes, eru nú þekktar sem „hinar fjórar í Gilgo“. Heuermann neitar að hafa myrt þær. 

Lík kvennanna þriggja fundust árið 2010 á Gilgo-strönd á Long …
Lík kvennanna þriggja fundust árið 2010 á Gilgo-strönd á Long Island. AFP/Spencer Platt/Getty Images

Hár fundust á líkunum

Stór áfangi náðist í rannsókn málsins í janúar árið 2023 þegar að rannsakendur tóku lífsýni úr afgangspítsu sem Heuermann henti í ruslið fyrir utan skrifstofu sína á Manhattan. DNA-sýnið tengdi hann við hár sem fannst á poka sem Waterman fannst í. 

„Ég held að aðalsönnunargagnið sé DNA,“ sagði Tierney saksóknari við CNN á föstudag. 

Rannsóknir á hárum sem fundust á eða nærri líkum Taylor og Costilla útilokuðu tengingu við 99,6% Bandaríkjamanna, Heuermann var ekki þar á meðal. Hárið gæti því hafa verið af honum. 

Tvær rannsóknarstofur hafa komist að þeirri niðurstöðu að hár sem fundust á fimm af sex fórnarlömbum tengjast Heuermann, náskyldri fjölskyldu hans eða fólki sem bjó með honum.

Ásetningur að myrða 

Heuermann er sextugur og verður ekki látinn laus úr haldi fyrir réttarhöld í málinu. Talið er að hann muni næst koma fyrir dómara 30. júlí. 

Michael Brown, verjandi Heuermann, sagði við fjölmiðla á fimmtudag að hann þyrfti tíma til þess að skoða nýju sönnunargögnin. 

Í janúar sagði hann að Heuermann væri saklaus og að hann hlakkaði til þess að verja Heuermann í réttarhöldunum. 

Heuermann er ákærður fyrir sex morð.
Heuermann er ákærður fyrir sex morð. AFP/Michael M. Santiago

Tierney saksóknari vill meina að ásetningur Heuermanns hafi verið að finna fórnarlömb, elta þau uppi, koma þeim undir stjórn hans og drepa þau. 

„Áætlun hans var engin önnur en að myrða þessi fórnarlömb.“

Tierney sagði að rannsókninni væri hvergi nærri lokið og að mögulega yrðu fleiri morð tengd við Heuermann. 

„Við munum halda áfram. Við ætlum ekki að hætta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert