Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, birti í dag sjálfu á samfélagsmiðlinum Instagram. Er það fyrsta myndin af forsætisráðherranum síðan hún var kýld á Kolatorginu í Kaupmannahöfn á föstudag.
Myndina birti forsætisráðherrann í tilefni þess að Danir, líkt og aðrar þjóðir innan Evrópusambandsins, ganga á kjörstað í dag til að kjósa fulltrúa á Evrópuþingið. 27 aðildarríki Evrópusambandsins kjósa til 720 sæta á Evrópuþinginu.
„Kæru öll. Ég vona að þið eigið góðan kjördag. Í dag skipta öll atkvæði jafn miklu máli. Það er eitt af því fallega við kjördaga. Þess vegna vona ég að þið haldið öll á kjörstað og nýtið atkvæðið ykkar,“ skrifaði forsætisráðherrann við myndina.
Frederiksen hlaut hálshnykk er 39 ára gamall pólskur maður kýldi hana á Kolatorginu við verslunargötuna Købmagergade í höfuðborginni.
Ekki er talið að pólitískur hvati liggi að baki árásinni, en maðurinn var ölvaður og undir áhrifum fíkniefna er atvikið átti sér stað. Hefur hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. júní. Hann kveðst lítið muna frá atvikinu og hefur því ekki játað á sig verknaðinn.
Frederiksen aflýsti öllum fundum í kjölfar atviksins og kvaðst sorgmædd og skelkuð vegna atviksins.