Lík fundið í tengslum við leitina að Mosley

Frá leitinni á eyjunni Symi.
Frá leitinni á eyjunni Symi. AFP

Lík hefur fundist í tengslum við leitina að breska sjónvarpslækninum Michael Mosley á grísku eyjunni Symi.

BBC greinir frá þessu en Mosley hefur verið saknað síðan á miðvikudag.

Hann var í fríi á eyjunni ásamt eiginkonu sinni er hann fór einn í göngutúr um hádegisbil á miðvikudag. Mosley skildi símann sinn eftir á hótelinu sem þau dvöldu á.

Mikil leit hefur staðið yfir í fjalllendi á eyjunni í nærri fimm daga. 

Ekki hafa enn verið formlega borin kennsl á líkið sem fannst á litlum kletti í grýttri hæð norðaustur af þorpinu Pedi, nærri Agia Marina-ströndinni þar sem Mosley skildi við eiginkonu sína á miðvikudag. 

Heimildarmaður BBC innan grísku lögreglunnar greindi frá því að hinn látni hefði verið látinn í „nokkra daga“. 

Borgarstjóri Symi sagði líkið hafa fundist þegar björgunarsveitir leituðu á strandlengjunni með myndavélum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Margir hafa tekið þátt í leitinni að Mosley.
Margir hafa tekið þátt í leitinni að Mosley. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert