Spennan magnast á lokametrum Evrópuþingskosninga

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdaráðs Evrópu ávarpar Evrópuþingið.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdaráðs Evrópu ávarpar Evrópuþingið. AFP

Milljónir manna munu ganga að kjörborðinu í dag, á síðasta degi kosninganna til Evrópuþings. Kosningar hafa staðið yfir í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) síðan á fimmtudag. Í dag munu Evrópumenn úr 21 aðildarríkjum greiða atkvæði.

Evrópuþingið fer með löggjafarvald ESB ásamt ráðherraráðinu. Kosið er til þingsins á fimm ára fresti og sitja 720 þingmenn á þinginu.

Fjöldi þingsæta veltur á íbúafjölda aðildarríkjanna.

Uppsveifla hægriflokka

Skoðanakannanir gefa í skyn að hægri-miðjuflokkar muni ná flestum sætum á Evrópuþinginu en staða þeirra gæti veikst vegna mikillar uppsveiflu harðlínuflokka til hægri, en samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum er búist við að flokkar lengst til hægri munu ná miklu fylgi. 

Þá hefur frönsku Þjóðfylkingunni undir stjórn Marine Le Pen verið spáð góðu brautargengi ásamt róttæka hægri flokknum Alternati­ve für Deutsch­land (AfD) en flokknumn hefur þó mótmælt víða í Þýskalandi þar sem hann þykir öfgafullur.

Búist er við að uppsveifla til hægri muni hafa mikil áhrif á stefnumótun innan ESB til næstu fimm ára. Mikið hefur verið tekist á um afstöðu ESB til innflytjenda, umhverfismála og öryggis- og varnarmála. Þá hafa ólík sjónarmið heyrst um hvort ESB eigi að halda áfram stuðningi við Úkraínu.

Óvíst hver verði forseti framkvæmdarstjórnar

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar ESB, sækist eftir því að halda áfram annað kjörtímabil en til þess þarf hún útnefningu leiðtogaráðs ESB ásamt því að meirihluti nýkjörinna þingmanna ESB þurfa á að samþykja hana í atkvæðagreiðslu.

Fyrir skemmstu voru stjórnmálaskýrendur nær öruggir að von der Leyen myndi halda áfram sem forseti framkvæmdarstjórnar en nú eru þeir langt frá því að vera vissir.

Þegar von der Leyen var kjörin forseti framkvæmdarstjórnar fyrir fimm árum var það með naumum meirihluta, eða níu atkvæða mun. Upp á síðkastið hefur hún orðið afar óvinsæl á meðal stjórnmálamanna. Þá hefur hún ítrekað sagst vilja vinna með hægriflokkum eins og þjóðfylkingu Le Pen, það hefur fengið misgóðar undirtektir á meðal vinstrimanna og frjálslyndra.

Búist er við að fyrstu tölur muni birtast seinni partinn í dag eða kvöld og ætti þá að vera ljóst hvernig þingsætin munu skiptast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert