Yfirvöld staðfesta að líkið er af Mosley

Slökkviliðsmenn sem tóku þátt í leitinni á Symi.
Slökkviliðsmenn sem tóku þátt í leitinni á Symi. AFP

Yfirvöld á grísku eyjunni Symi hafa staðfest að líkið sem fannst í morgun er af breska sjónvarpslækninum Michael Mosley. 

„Fólk á bát sá lík nærri grýttri ströndinni,“ sagði Petros Vassilakis, lögreglufulltrúi. 

Sjónvarpsteymi gríska fjölmiðilsins ERT sá líkið er þau voru að mynda á svæðinu þar sem Mosley hvarf á miðvikudag. 

Tökumaður „sá eitthvað nærri grindverki, um 50 metrum frá sjónum“, sagði Aristides Miaoulis, fréttamaður ERT, í beinni útsendingu á stöðinni.

„Við fundum þennan mann... hann lá á jörðinni á bakinu.“

Svæðið sem líkið fannst á er erfitt yfirferðar.
Svæðið sem líkið fannst á er erfitt yfirferðar. AFP/Maria Panorma

Mikill hiti á eyjunni

Lefteris Papakalodouka, borgarstjóri Symi, var með teymi ERT og staðfesti að þau hefðu fundið Mosley. 

„Þetta er líkt blaðamannsins sem við höfum verið að leita að í nokkra daga,“ sagði hann við ERT. 

Papakalodouka nefndi að gríðarlegur hiti hafi verið á eyjunni síðustu daga og sagði að svæðið sem Mosley sást síðast á sé erfitt yfirferðar sökum þess hve jarðvegurinn er grýttur. 

BBC greinir frá því að verið sé að flytja líkið eftir að réttarmeinafræðingur skoðaði það. Hann mun ganga úr skugga um að andlátið hafi ekki borið að með saknæmum hætti. 

Þakkaði viðbragðsaðilum fyrir aðstoðina

Mosley var 67 ára gamall og var hvað þekkt­ast­ur fyr­ir þætt­ina Treystu mér ég er lækn­ir, sem sýnd­ir hafa verið í Rík­is­sjón­varp­inu og bók­ina um 5:2 mataræðið.  

Hann var í fríi á eyjunni ásamt eiginkonu sinni. Hún gerði lögreglu viðvart á miðvikudagskvöld eftir að hann kom ekki aftur á hótel þeirra úr göngu. 

Clare Bailey Mosley, eiginkona hans, gaf frá sér yfirlýsingu fyrir stuttu. 

Hún harmaði dauða eiginmannsins og þakkaði viðbragðsðilum á Symi sem leituðu að Mosley. 

Saman eiga þau fjögur börn. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert