„Aldrei gleyma skaðanum“

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands. AFP/Odd Andersen

„Við skulum aldrei gleyma skaðanum sem þjóðernishyggja og hatur hafa valdið í Evrópu,“ sagði Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, er hann heimsótti vettvang fjöldamorðs nasista í þorpi í Frakklandi í dag.

„Gleymum aldrei því kraftaverki sátta sem Evrópusambandinu hefur tekist,“ sagði Steinmeier við minningarathöfn við þorpið Oradour-sur-Glane þar sem nasistar myrtu óbreytta borgara árið 1944.

Varar við hættu fyrir Frakkland

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, var einnig viðstaddur en flokkur hans laut í lægra haldi gegn róttæka hægriflokknum RN í kosningum til Evrópuþings í Frakklandi um helgina.

Í kjölfar þess hefur Macron boðað til kosninga í Frakklandi sem margir telja áhættusama ákvörðun.

Í yfirlýsingu varar hann einnig við hættunni á „uppgangi þjóðernissinna og lýðskrumara“ fyrir Frakkland og stöðu þess í Evrópu.

„Það er í þessari minningu, í ösku Oradour, sem við verðum að tryggja að styrkur þessarar sáttar endurfæðist,“ sagði Macron við minningarathöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert