Í dag ræðst hvort Hunter Biden, sonur Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, muni bera vitni í máli sem höfðað var gegn honum vegna meintra ólöglegra skotvopnakaupa eða hvort verjendur hans ljúki máli sínu.
Búist er við því að Biden yngri muni ekki bera vitni í málinu til þess að forða honum frá frekari spurningum frá saksóknara. Verjendur muni þar af leiðandi binda endahnút á mál sitt í dag og kviðdómur þá taka við.
Fram kemur að saksóknari hafi reynt með ýmsum leiðum að sýna fram á að Biden yngri hafi verið virkur fíkniefnanotandi á þessum tíma. Til dæmis með því að sýna skeytasendingar hans og varpa ljósi á hvernig fjölskylda hans hafi gefist upp á samskiptum við hann.
Biden yngri er 54 ára gamall og fyrsta barn sitjandi forseta til þess að vera sótt til saka. Hann er sakaður um að hafa keypt sér byssu undir áhrifum fíkniefna árið 2018 og ólöglega haft byssuna undir höndum í 11 daga.
Honum er gefið að sök að hafa fært inn rangar upplýsingar á eyðublöðum sem fylgdu byssukaupunum þar sem krafist er að viðkomandi noti ekki ólögleg fíkniefni.
Alls er um þrjá ákæruliði að ræða og fara réttarhöldin fram í Wilmington í Delaware-ríki.