Flugvél þar sem um borð var varaforseti Malaví, Saulos Chilima, týndist í morgun. Auk varaforsetans eru níu aðrir farþegar í vélinni.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Flugvélin hvarf af ratsjá eftir brottför frá höfuðborg landsins, Lilongwe, og fyrirskipaði forseti Malaví, Lazarus Chakwera, leitar- og björgunaraðgerðir eftir að flugmálayfirvöld náðu ekki sambandi við vélina.
mbl.is greindi frá því í maí að Ísland og Malaví hefðu fagnað 35 ára samstarfsafmæli í ár.
Fór Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í opinbera heimsókn til landsins og varði miklum tíma með varaforsetanum.
Sást meðal annars til þeirra saman í hátíðarhöldum sem Bjarni tók þátt í.