Fullviss um að franska þjóðin velji rétt

Macron kveðst fullviss um að þjóðin velji rétt.
Macron kveðst fullviss um að þjóðin velji rétt. AFP/Hannah McKay

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kveðst fullviss um að Frakkar muni taka „rétta ákvörðun“ í þingkosningum sem hann hefur boðað til í kjölfar niðurstaða kosninga til Evrópuþings í Frakklandi.

Niðurstaðan var sú að flokkur Macrons laut í lægra haldi gegn hægriflokki Le Pen. Fékk hægriflokkur Le Pen 33% fylgi á sama tíma og flokkur Macrons fékk 15% fylgi. 

Margir segja þessa ákvörðun Macrons, að boða til þingkosninga, áhættusama og miða að því að halda öfgahægri þjóðfylkingunni (RN) frá völdum þegar kjörtímabili Macrons lýkur árið 2027.

Hefur metnað fyrir því að vera landinu til góða 

„Ég er fullviss um getu frönsku þjóðarinnar til að velja rétt fyrir sig og komandi kynslóðir,“ skrifaði Macron í færslu á miðlinum X

„Ég hef metnað fyrir því að vera landinu okkar, sem mér þykir svo vænt um, til góða.“

Þá benti Macron á að hægriflokkum í Frakklandi, þar á meðan RN, hefðu tekist að ná nær 40% atkvæða í Evrópuþingskosningunum í Frakklandi. Því næst varaði hann við hættunni á „uppgangi þjóðernissinna og lýðskrumara“ fyrir Frakkland og stöðu þess í Evrópu.  

Sagðist hann vita að hann gæti reitt sig á að kjósendur „kjósi að skrifa söguna í stað þess að verða fyrir henni“.

Í von um að vinna aftur meirihlutann 

Með kosningunum bindur Macron vonir við að vinna aftur meirihlutann sem hann tapaði í neðri deild þingsins eftir að hafa unnið annað kjörtímabil í þingkosningunum árið 2022. Sumir óttast þó að RN muni sigra Macron sem verður til þess að flokkur Macron mun þurfa að vinna í óþægilegu bandalagi með forsætisráðherra úr róttækum hægriflokki. 

Sebastien Chenu, varaforseti RN, segir að Jordan Bardella, 28 ára leiðtogi flokksins, verði keppinautur Macrons um embættið.

Jordan Bardella er frambjóðandi okkar“ fyrir forsætisráðherraembættið, sagði hann í samtali við RTL útvarpsstöðina.

Bardella varð leiðtogi RN aðeins 27 ára að aldri, en hann tók við af Le Pen sem hefur unnið að því að bæta ímynd flokksins og losa hann við þá kynþáttafordóma og gyðingahatur sem faðir hennar og stofnandi flokksins, Jean-Marie Le Pen, skildi eftir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert