Bandaríkin hjálpa Palestínu fyrir 56 milljarða króna

Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna í Jórdaníu.
Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna í Jórdaníu. AFP/Alaa Al-Sukhni

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að bandarísk stjórnvöld ætli sér að veita 404 milljónum dala, eða sem samsvarar rúmlega 56 milljörðum íslenskra króna, til hjálparstarfs í Palestínu.

Blinken greindi frá þessu á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem fór fram í Jórdaníu í dag. 

Þar lagði hann áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu, hvatti önnur ríki til að leggja fram hjálparhönd og leggja meira af mörkum. 

Hann benti enn fremur á að verulegur skortur væri á fjármagni af hálfu SÞ til handa hjálparstarfs í Palestínu, en hann sagði að Palestínumenn hefðu aðeins fengið um þriðjung af því sem þau nauðsynlega þyrftu.

Heildaraðstoð upp á 95 milljarða

Frá því stríðið á milli Ísraels og Hamas braust út í október í fyrra, þá hafa Bandaríkin samtals veitt 674 milljónum dala til hjálparstarfs í Palestínu, sem jafngildir um 95 milljörðum íslenskra króna. Frá þessu greinir bandaríska utanríkisráðuneytið. 

Blinken tók ekki fram hvernig bandarísk yfirvöld myndu dreifa fjármunum, en tók fram að Bandaríkin myndu halda áfram að einblína á matvælaáætlun og einkarekin hjálparsamtök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert