Forseti Malaví, Lazarus Chakwera, greinir frá því að enginn hafi komist lífs af þegar flugvél með Saulos Chilima varaforseta og níu öðrum hrapaði í skóglendi.
„Flugvélin er fundin og ég er sorgmæddur og leiður að tilkynna ykkur öllum, að þetta hefur reynst vera ömurlegur harmleikur,“ sagði forsetinn í sjónvarpsávarpi sínu.
Flugvélin hvarf í gær af ratsjá eftir brottför frá höfuðborg Malaví, Lilongwe, og hófust leitar- og björgunaraðgerðir eftir að flugmálayfirvöld náðu ekki sambandi við vélina.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, fór í opinbera heimsókn til Malaví í maí í tilefni af 35 ára samstarfsafmæli landana.
mbl.is greindi frá því að Bjarni hefði varið tíma með Chilima varaforseta og sást meðal annars til þeirra saman í hátíðarhöldum sem Bjarni tók þátt í.