Bandarískur kviðdómur hefur sakfellt Hunter Biden, sem er sonur Joe Biden Bandaríkjaforseta, í máli sem varðar kaup á skotvopnum með ólögmætum hætti.
Hann var sakaður um að hafa keypt sér skotvopn undir áhrifum fíkniefna árið 2018 og ólöglega haft byssuna undir höndum í 11 daga. Honum var einnig gefið að sök að hafa fært inn rangar upplýsingar á eyðublöðum sem fylgdu byssukaupunum þar sem krafist er að viðkomandi noti ekki ólögleg fíkniefni
Biden yngri er 54 ára gamall og fyrsta barn sitjandi forseta til þess að vera sótt til saka.
Ákæran á hendur Biden var í þremur liðum og komst kviðdómurinn að þeirri niðurstöðu að sakfella ætti hann í öllum tilvikum.
Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar, að það hafi tekið kviðdóminn um þrjár klukkustundir að komast að niðurstöðu.
Réttarhaldið stóð yfir í eina viku í Wilmington í Delaware, sem er heimabær Bidens. Hann gaf ekki skýrslu fyrir dómi á meðan aðalmeðferðinni stóð.
Jill Biden, forsetafrú Bandaríkjanna, var viðstödd nokkra daga, en ekki sjálfur forsetinn. Joe Biden hefur þó sagt að hann og Jill séu afar stolt af syni sínum.
„Sem forseti, þá tjái ég mig ekki, og mun ekki tjá mig, um alríkisdómsmál sem eru í gangi, en sem faðir, þá elska ég son minn skilyrðislaust. Ég hef trú á honum og virði styrk hans,“ hefur Biden látið hafa eftir sér.
Þetta er ekki eina dómsmálið sem Hunter Biden hefur þurft að glíma við, því hann er einnig sakaður um undanskot frá skatti í Kaliforníu.