Tók fulltrúum Íslands „opnum örmum“

Bjarni og Chilima. Myndin er samsett.
Bjarni og Chilima. Myndin er samsett. Ljósmynd/Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir Dr. Saulos Klaus Chilima, varaforseta Malaví sem fórst í flugslysi í gær, hafa verið skarpgreindan, vinsælan og hafa mikla trú á framtíð Malaví.

Frá þessu greinir ráðherrann í færslu á Facebook. 

Bjarni hefur þegar sent samúðarkveðjur til fjölskyldu Chilima, forseta Malaví, og þjóðarinnar allrar en hann heimsótti Malaví fyrir skömmu í tilefni 35 ára afmælis þróunarsamvinnu Malaví og Íslands.

„Hafði mikla trú á framtíð síns fallega lands“

„Það var sláandi að heyra af andláti Dr. Saulos Klaus Chilima, varaforseta Malaví, í flugslysi í gær. Það eru rétt rúmar tvær vikur síðan hann tók mér og öðrum fulltrúum Íslands opnum örmum í opinberri heimsókn til landsins. Við eyddum umtalsverðum tíma saman í ferðinni, sem farin var í tilefni 35 ára afmælis þróunarsamvinnu Íslands og Malaví. Chilima var skarpgreindur, vinsæll og hafði mikla trú á framtíð síns fallega lands.

Ég hef sent forseta Malaví, Dr. Lazarus Chakwera, og varaforsetafrú Malaví, Mary Chilima, mínar dýpstu samúðarkveðjur fyrir Íslands hönd. Þær kveðjur ítreka ég til malavísku þjóðarinnar allrar,” segir í færslu Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert