Aftur verðmætasta fyrirtæki í heimi

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP

Tæknirisinn Apple hefur endurheimt stöðu sína sem verðmætasta fyrirtæki í heimi ef litið er til verðs á hlutabréfum. Microsoft hefur borið titlinn síðan í janúar.

Verð á hlutabréfum í Apple hefur verið á uppleið í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti fyrr í vikunni um nýjar leiðir til notkunar á gervigreind með snjalltækjum frá framleiðandanum.

Klukkan 15.30 í dag var Apple metið á 3.330 milljarða bandaríkjadala en sú upphæð nemur um 456.027 milljörðum íslenskra króna. Microsoft er metið á 3.260 milljarða bandaríkjadala.

Ný gervigreind kynnt til sögunnar

Apple, sem lengi vel þótti eftir á þegar kemur að þróun gervigreindar, hefur svipt hulunni af nýrri gervigreindarlausn sem kallast Apple Intellegence en á íslensku gæti það verið þýtt sem Apple-greind. 

Gervigreindinni verður smám saman bætt inn í IOS 18-stýrikerfið en tæknin verður bara aðgengileg í mestu hágæðavörum fyrirtækisins. Ætla má að það sé gert til að fá viðskiptavini til að kaupa dýrari vörur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert