Losna undan herskyldu gegn gjaldi

Ef frumvarp stjórnarmeirihlutans gengur eftir munu fyrirtæki geta losað starfsmenn …
Ef frumvarp stjórnarmeirihlutans gengur eftir munu fyrirtæki geta losað starfsmenn sína undan herskyldu gegn gjaldi. AFP/Yasuyoshi Chiba

Ef frumvarp sem lagt hefur verið fyrir úkraínska þingið gengur eftir munu fyrirtæki geta greitt mánaðarlegt gjald til að losa starfsmenn sína undan herskyldu.

Upphæðin sem fyrirtækin munu þurfa að greiða mánaðarlega nemur 500 dölum fyrir hvern starfsmann en það jafngildir tæplega 70.000 íslenskum krónum.

Gert til að tryggja fyrirsjáanleika

Hundruð þúsunda manna á herskyldualdri hafa yfirgefið Úkraínu frá því stríðið hófst 2022 en meirihluti fyrirtækja þar í landi hefur fundið fyrir starfsmannaskorti vegna þessa.

„Á þessum tímum reiðir starfsemi allra fyritækja sig á fyrirsjáanleika og helsta spurningin sem brennur á flestum framleiðendum í dag er hvort þeir geti haldið í mikilvæga starfsmenn,“ sagði Dmytro Natalukha, þingmaður meirihlutans á úkraínska þinginu, á Facebook.

Geta tekið starfsmenn frá

Natalukha segir að samkvæmt frumvarpinu muni hvert fyrirtæki sem greiðir mánaðarlegt gjaldið fyrir starfsmann geta „tekið þann starfsmann frá“.

„Gjaldið verður ekki greitt af starfsmanninum sjálfum heldur vinnustað hans,“ segir Natalukha og bætir við að þetta gefi fyrirtækjum færi á að ákveða sjálf „hverjir séu mikilvægastir“. 

Yfirvöld í Úkraínu hafa upp á síðkastið kynnt til sögunnar ýmis úrræði til að efla bolmagn sitt í stríðinu. Herskyldualdurinn hefur verið lækkaður niður í 25 ára, ákveðnum föngum leyft að berjast í stríðinu og afleiðingar þess að reyna að losna undan herskyldu verið auknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert