30 milljarða sekt vegna meðferðar á flóttamönnum

„Svo virðist sem að ólöglegir innflytjendur séu kerfiskörlunum í Brussel …
„Svo virðist sem að ólöglegir innflytjendur séu kerfiskörlunum í Brussel mikilvægari en eigin þegnar,“ sagði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á félagsmiðlum. AFP/Attila Kisbenedek

Evrópudómstóllinn hefur sektað Ungverjaland um 200 milljónir evrur eða tæpar 30 milljarða krónur. Sektinni fylgir dagleg sekt upp á eina milljón evrur fari Ungverjaland ekki að lögum sambandsins þegar kemur að flóttamönnum og fyrir að vísa innflytjendum á brott með ólöglegum hætti. 

Brot án fordæmis

Dómstóllinn segir yfirvöld í Ungverjalandi hafa meðvitað ákveðið að fara á skjön við úrskurð dómstólsins frá árinu 2020 er varðar meðferð flóttamanna. 

„Brestur á umræddum skyldum felur í sér einstakalega alvarlegt brot án fordæmis á reglum Evrópusambandsins,“ kemur fram í yfirlýsingu frá dómstólnum. 

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði ákvörðun dómstólsins svívirðilega og óásættanlega í færslu á félagsmiðlinum X. 

„Svo virðist sem að ólöglegir innflytjendur séu kerfiskörlunum í Brussel mikilvægari en eigin þegnar,“ sagði hann enn fremur. 

Áður verið vöruð við

Dómstóllinn hefur áður varað yfirvöld í Ungverjaland við fyrir að sporna gegn tilmælum sambandsins frá 2015 um móttöku kvótaflóttamanna.

Yfirvöld hafa gripið til ýmissa ráða til þess að hefta komu flóttamanna til landsins. Þar á meðal með því að vísa flóttamönnum úr landi á meðan að verið er að fara yfir umsókn þeirra. 

Að mati dómstólsins eru yfirvöld með þessum hætti að grafa undan samstöðu og sameiginlegri ábyrgð aðildarríkja sambandsins.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert