Norsk músagildra fyrir Hæstarétt

Hin hugvitsamlega músagildra Lindu Strand í Mæri og Raumsdal vakti …
Hin hugvitsamlega músagildra Lindu Strand í Mæri og Raumsdal vakti athygli lögreglunnar á staðnum og nú bíða mýs og menn dóms Hæstaréttar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Dómsuppkvaðningar er að vænta í Hæstarétti Noregs um réttmæti heimatilbúinnar músagildru í Surnadal í Mæri og Raumsdal og fylgist norskur almenningur svo spenntur með málinu að beinu streymi málsins frá Hæstarétti hefur verið komið á svo áhorfendur geti fylgst með því með hvaða rökum rétturinn sýknar eða sakfellir ákærðu.

Þar er komin Linda Strand sem búsett er í 400 ára gömlu timburhúsi en músagangur í húsinu var slíkur þegar þau fjölskyldan fluttu inn að Strand kveðst hafa neyðst til að ganga um gólf í stígvélum.

Taldi hún ástandið ótækt og útbjó sína eigin músagildru, fötu með vatni blönduðu frostvökva. Ofan á fötunni kom hún tómri gosdós fyrir sem eins konar öxull lá í gegnum, prik sem hélt dósinni ofan á fötunni, þó með þeim hætti að dósin og prikið gátu auðveldlega snúist. Við annan enda dósarinnar lagði Strand eins konar göngubrú svo ógæfusamar mýs kæmust upp á dósina en á hinum enda dósarinnar var agnið – bangsi úr súkkulaði með kremfyllingu, algengt norskt sælgæti.

Innan um ótal hræ

Þegar mús hugði sér gott til glóðarinnar og hóf göngu sína að bangsanum eftir dósinni snerist dósin þegar í stað vegna þunga músarinnar og hún steyptist niður í fötuna þar sem hennar beið öruggur dauðdagi – drukknun innan um ótal hræ meðbræðra sinna.

Virkni gildrunnar fór fram úr björtustu vonum og birti Strand myndir af hugverki sínu á Facebook þar sem lögreglan í Mæri og Raumsdal kom auga á þær einhvern daginn þegar hættulegir stórglæpamenn létu lítið að sér kveða í sveitasælu þessa litla fylkis sem er það nyrsta á því sem Norðmenn skilgreina sem Vesturland.

Sendi lögregla mannskap á vettvang sem rannsakaði málið og ákvarðaði lögreglustjóri Lindu Strand í kjölfarið 6.000 króna sekt, jafnvirði rúmlega 78.000 íslenskra króna. Gildran væri ómannúðlegt drápstól.

Strand vildi ekki una

Þessu vildi Strand ekki una og gekk málið þar með til héraðsdóms sem dæmdi sektina réttmæta. Enn vildi Strand ekki greiða og áfrýjaði til Lögmannsréttar Frostaþings sem neitaði þegar að taka við svo ómerkilegu máli. Strand kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem skikkaði millidómstigið til að dæma í málinu. Niðurstaða þess dómsmáls varð sú sama og í héraði og þar með aðeins æðsti dómstóll landsins eftir.

Norska ríkisútvarpið NRK vitnaði til Dýrabæjar eftir George Orwell í umfjöllun sinni um málið í fyrra, hins fræga áskilnaðar „Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur“. Var tilvitnunin í frétt um að Hæstiréttur hefði gert lögmannsrétti að taka málið fyrir.

John Christian Elden, verjandi Strand, kveður hana eiga rétt á að búa á sínu eigin heimili svo vel fari. Magne Nyborg héraðssaksóknari krefst hins vegar sakfellingar og segir Strand hafa átt að reyna viðurkennd úrræði fyrst, svo sem hefðbundnar músagildrur eða annan heimiliskött í viðbót við köttinn Rigfar sem fékk ekki rönd við reist í músafaraldrinum.

Kallaði ákæruvaldið Petter Bøckmann, dýrafræðing við Náttúrusögusafn Noregs, fyrir dóminn sem vottaði að drukknun væri ekki þægilegri dauðdagi fyrir mýs en menn, en Strand er saksótt fyrir brot á 37. grein laga um dýravernd, Dyrevelferdsloven, þar sem kveðið er á um að aflífun dýra skuli fara fram eins mannúðlega og unnt er.

Dómur Hæstaréttar fellur í dag.

NRK

NRKII (Málið á leið til Hæstaréttar)

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert