Samhæfð loftárás Hisbollah á Ísrael

Sum skeytanna komust í gegnum loftvarnakerfi Ísraels.
Sum skeytanna komust í gegnum loftvarnakerfi Ísraels. AFP/Jalaa Marey

Hisbollah-samtökin í Líbanon framkvæmdu samhæfða loftárás á ísraelsk hernaðarskotmörk fyrr í dag. 

Samtökin sem búa að stuðningi stjórnvalda í Íran segja árásina mótsvar við morði eins helsta leiðtoga samtakanna, Taleb Abdallah. 

Stöðvuðu meginþorra skotflauganna

Samkvæmt yfirlýsingu frá Hisbollah hleyptu samtökin af stað dróna- og loftskeytaárás á níu mismunandi hernaðarskotmörk. 

Meðal skotmarka var herstöð sem samtökin segja að hafi verið bækistöð leyniþjónustunnar sem skipulagði morð Abdallah. 

Yfirvöld í Ísrael segja að um 40 skotflaugum hafi verið hleypt af stað í átt að svæðunum Galilee og Golan og sögðu enn fremur að loftvarnakerfi hefði stöðvað meginþorra skotflauganna á miðri leið, en að einhver hefðu komist í gegn.

Yfirvöld hétu því að hefna árásinnar af hörku: „Ísrael mun svara árásarhneigð Hisbollah af hörku,“ sagði talsmaður ríkisstjórnar Ísrael, David Mencer, á blaðamannafundi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert