Leitaði sér hjálpar eftir árásina

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP/Khaled Desouki

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kom fram í opinberum erindagjörðum í fyrsta sinn í dag síðan hún varð fyrir árás þann 7. júní síðastliðinn. Hún segist halda að samfélagið eigi erfiðara með að sætta sig við konur í valdastöðum heldur en karla.

Forsætisráðherrann viðurkenndi í viðtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 hafa leitað sér aðstoðar hjá fagaðila í kjölfar þess að 39 ára gamall pólskur maður kýldi hana á torgi í Kaupmannahöfn.

Lögreglan hefur handtekið manninn, sem mun sitja í gæsluvarðhaldi til 20. júní, en telur hún ólíklegt að hann hafi ráðist á ráðherrann vegna pólitískra hvata.

Segir suma gagnrýni tengjast kyni

Frederiksen var stödd á stjórnmálahátíð á Borgundarhólmi í opinberum erindagjörðum í dag. Var hún þar spurð hvers vegna hún talaði ekki meira um kyn sitt í opinberri umræðu. Svaraði forsætisráðherrann því að hún hafi ekki verið mjög dugleg við það hingað til.

Hún viðurkenndi að þrátt fyrir að Danmörk hafi lengi staðið sig vel í kynjajafnrétti þá hafi hún og aðrar danskar sjórnmálakonur lent í því að gagnrýni gagnvart þeim tengist kyni fremur en öðru. 

„Við eigum erfiðara með völd og konur heldur en völd og karlmenn," segir Mette.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert