MeToo-aðgerðasinni í fimm ára fangelsi

Sophia Huang Xueqin hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi.
Sophia Huang Xueqin hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi. AFP

Kínverskur aðgerðasinni og blaðamaður sem tók virkan þátt í MeToo-herferðinni hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi.

Sophia Huang Xueqin var handtekin ásamt verkalýðsaðgerðasinnanum, Wang Jianbing, á flugvelli árið 2021 en réttarhöld yfir þeim hófust ekki fyrr en í september á síðasta ári.

Segja þau hafi þolað 1.000 daga einangrun

Stuðningsmenn þeirra segja að þau hafi bæði þurft að þola næstum 1.000 daga einangrun meðan á gæsluvarðhaldi þeirra stóð.

Xueqin og Jianbing voru dæmd fyrir niðurrif gegn ríkinu. Þó hafa kínversk yfirvöld ekki útskýrt ákæruna frekar.

BBC greinir frá því að Xueqin hafi verið dæmd í fimm ára fangelsi en Jianbing í þriggja og hálfs árs fangelsi.

Stuðningsmenn parsins segja einnig að þau hafi í raun og veru verið handtekin fyrir að halda reglulega fundi og ráðstefnur fyrir ungt fólk til þess að ræða samfélagsmálefni.

Upplifði kvenfyrirlitningu sem blaðamaður

Blaðamaðurinn, sem er 36 ára gömul, hafði greint frá sögum um þolendur kynferðisofbeldis og tjáði sig einnig um kvenfyrirlitninguna sem hún hafði upplifað á kínverskum fréttastofum.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa kallað dómana „illgjarna og algjörlega ástæðulausa.“

Xueqin var áður handtekin af kínversku lögreglunni árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert