Hefur áhyggjur af sambandi N-Kóreu og Rússlands

Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, John Kirby, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu …
Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, John Kirby, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington-borg í Bandaríkjunum í dag. AFP/Saul Loeb

Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna segist hafa áhyggjur af sambandi Rússlands og Norður-Kóreu.

Vla­dimír Pútín, for­seti Rúss­lands, held­ur á morg­un til Norður-Kór­eu til fund­ar við Kim Jong Un, leiðtoga Norður–Kór­eu, en stjórn­völd í Kreml greindu frá því í dag.

„Við höfum engar áhyggjur af ferðinni sjálfri. Það sem við höfum áhyggjur af er aukið milliríkjasamband milli þessara tveggja ríkja,“ sagði John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðsins við blaðamenn í dag.

Kirby sagði áhyggjur hans væru „ekki bara vegna áhrifanna sem þetta mun hafa á úkraínsku þjóðina, vegna þess að við vitum að norðurkóreskar eldflaugar eru enn notaðar til að skjóta á úkraínsk skotmörk, heldur vegna þess að það gæti sömuleiðis haft áhrif á þjóðaröryggi á Kóreuskaganum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert