Unglingsstúlka á Instagram: 92% fylgjenda fullorðnir karlar

AFP

Fylgjendur bandarískrar unglingsstúlku, sem hefur gert það gott á Instagram, eru um 92% fullorðnir karlmenn. 

The Wall Street Journal birti umfjöllun um málið á laugardag. Þar er saga mæðgna sem búa í Miðvesturríkjunum rakin, en dóttirin er dansari. 

Móðir stúlkunnar bjó til Instagram–reikningin fyrir þremur árum, á tímum heimsfaraldursins, þegar stúlkan var táningur. 

Reikningurinn var hugsaður sem leið fyrir hana og dóttur hennar til þess að deila myndum með fjölskyldu, vinum og öðrum ungum dönsurum og mæðrum þeirra. 

Móðirin hafði umsjón með reikningnum og fylgdist með er fylgjendunum fjölguðu. Fljótlega buðu ljósmyndarar stúlkunni í myndatökur og vörumerki sendu henni vörur til þess að auglýsa á miðlinum. 

„Við höfðum ekki átt reikninginn í mánuð þegar að vörumerki spurðu: „Getum við sent henni dansfatnað?““ sagði móðirin og bætti við að dóttir hennar hefði orðið vinsæl mjög fljótt. 

Móðirin tók þá eftir í tölfræðigögnum reikningsins að flestir fylgjendur dóttur hennar voru fullorðnir karlmenn. 

Sendu kynferðislegar myndir

Karlmenn skrifuðu ummæli á færslur hennar og sögðu hvað hún væri falleg. 

Sumir karlmenn sendu henni einkaskilaboð þar sem þeir sögðu henni að þeir væru með þráhyggju fyrir henni. Enn aðrir sendu henni myndir af karlkyns kynfærum og slóðir á klámsvefsíður. 

Stundum eyddi móðirin tveimur til fjórum klukkustundum í að loka á notendur og eyða óviðeigandi athugasemdum. Á sama tíma höfðu fleiri vörumerki samband við mæðgurnar og tekjur af reikningnum jukust. 

„Þetta hélt bara áfram að stækka, og svo voru vörumerkin ekki einungis fyrir dansfatnað,“ sagði dóttirin sem er nú í menntaskóla. „Það var mjög svalt.“

Draumur að verða áhrifavaldur

Dóttirin hafði gaman af vinsældunum á Instagram og sagði við móður sína að „draumastarfið“ hennar væri að verða áhrifavaldur. 

Móðirin var því á milli steins og sleggju. Hún vissi að dóttir hennar þyrfti á mun fleiri fylgjendum að halda til þess að geta starfað sem áhrifavaldur. Því gat hún ekki lokað á svo marga fylgjendur, jafnvel þó þeir væru fullorðnir karlmenn. 

Móðirin ákvað að leyfa reikningnum að vera þar sem hann gerði samband þeirra mæðgna nánara, auk þess að tekjurnar gætu nýst til þess að borga háskólanám stúlkunnar. 

„Það er ekki eins og ég var nokkurn tímann hrifin af þessu. Ekki nokkurn tímann. Svona er það bara,“ sagði móðirin. 

Karlkyns áskrifendur 

Hún sagðist oft hafa velt því fyrir sér hvort hún ætti að loka reikningnum. 

Nýjustu tölur sýna að 92% fylgjendur stúlkunnar eru fullorðnir karlmenn. 

Á einum tímapunktur buðu mæðgurnar upp á mánaðarlega áskrift fyrir auka myndir og myndskeið. Margir áskrifendur voru karlmenn. 

Nánar er hægt að lesa umfjöllun WSJ um málið hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert