Loftárásir Ísraela og hernaður þeirra á jörðu niðri á Gasasvæðinu hafa orðið heilu stórfjölskyldunum að bana og eru engin fordæmi fyrir áhrifunum sem árásirnar hafa haft á samfélagið á svæðinu, sem er að mestu leyti skipað flóttamönnum og afkomendum þeirra.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar AP-fréttastofunnar sem skoðaði tíu loftárásir víðs vegar um Gasasvæðið frá október til desember í fyrra þar sem yfir 500 manns voru drepnir.
Næstum hver einasta palestínska fjölskylda á Gasasvæðinu hefur orðið fyrir miklum missi. Margar þeirra hafa þurrkast út, sérstaklega á fyrstu mánuðum stríðsins.
AP notaði m.a. gögn frá Airwars, eftirlitsaðila sem starfar í Lundúnum, í rannsókn sinni.
Árásirnar sem voru rannsakaðar voru gerðar á íbúðabyggingar og skýli þar sem fjölskyldur bjuggu. Í engum tilfellum var um augljós hernaðarleg skotmörk að ræða, auk þess sem fólkið inni í húsnæðinu var ekki varað við.