Taíland lögleiðir samkynja hjónabönd

Konungur Taílands Maha Vajiralongkorn mun brátt undirrita nýju lög landsins …
Konungur Taílands Maha Vajiralongkorn mun brátt undirrita nýju lög landsins sem leyfa hjónaband samkynhneigðra. AFP

Samkynja hjónabönd voru samþykkt í Taílandi í dag, en með því verður Taíland þriðja landið í Asíu til að lögleiða hjónabönd sama kyns. Aðeins Nepal og Taívan hafa orðið fyrri til.

Lengi hefur Taíland sýnt umburðarlyndi í garð hinsegin málefna og hafa fjölmiðlar landsins birt kannanir sem sýna fram á yfirgnæfandi stuðning almennings í garð þessara málefna.

Lögleiðingin var samþykkt á taílenska þinginu í dag með 130 atkvæðum gegn fjórum, en 18 sátu hjá.

Fleiri en 30 lönd hafa lögleitt samkynja hjónabönd

Löggjöfin mun nú fara til Maha Vajiralongkorn, konungs Taílands, til samþykkis og tekur svo gildi 120 dögum síðar.

Stjórnvöld á Indlandi voru nálægt því að lögleiða samkynja hjónabönd í október en hæstiréttur landsins vísaði ákvörðuninni aftur til þingsins.

Fleiri en 30 lönd um heim allan hafa lögleitt samkynja hjónabönd síðan Holland var fyrst til að gera það árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert