Bandaríkin fá aðgang að sænskum herstöðvum

Sænska þingið hefur samþykkt varnarsamning Bandaríkjanna og Svíþjóðar sem veitir …
Sænska þingið hefur samþykkt varnarsamning Bandaríkjanna og Svíþjóðar sem veitir Bandaríkjamönnum aðgang að sautján sænskum herstöðvum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Holger Ellgaard

Sænsk stjórnvöld hafa veitt Bandaríkjamönnum aðgang að sautján herstöðvum í Svíþjóð með það fyrir augum að auðvelda bandalagsþjóðinni varnir Svíþjóðar og Skandinavíu komi til árásar á eitthvert ríkjanna eða þau öll.

Hefur sænska þingið nú lagt blessun sína yfir samninginn sem undirritaður var í desember og felur hann í sér að auk aðgengis að herstöðvunum sautján fái aðkomuherinn fulla þjálfunaraðstöðu og réttindi til að staðsetja hermenn sína að vild og framleiða hergögn í Svíþjóð.

Sex af átta stjórnmálaflokkum á þinginu veittu samningnum brautargengi, allir utan Vinstriflokksins og Græningja.

Versta ástand öryggismála í Evrópu

Samkvæmt samningnum, sem ber heitið Samkomulag um varnarsamstarf, Defense Cooperation Agreement, geta bandarískir hermenn komið fyrirvaralaust til Svíþjóðar komi til neyðarástands en fyrirkomulagið mun einnig gefa Atlantshafsbandalaginu NATO færi á að grípa til varna fyrir Eystrasaltslöndin ef þörf krefur.

„Við upplifum nú versta ástand öryggismála í Evrópu frá því í síðari heimsstyrjöldinni,“ sagði Aron Emilsson, þingmaður Svíþjóðardemókratana, við umræður um samninginn í sænska þinginu.

Tormod Heier, prófessor í herkænsku og hernaðaraðgerðum við Herskólann í Stokkhólmi, segir í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK að samningurinn marki vatnaskil í samskiptum ríkjanna auk þess sem hann sendi Rússum þau skilaboð að erkióvinurinn í vestri hafi nú öðlast mun tryggari fótfestu í allri Norður-Evrópu.

SVT 

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert