Lífvörður í öryggisteymi Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið handtekinn vegna gruns um ólöglega veðmálastarfsemi.
Maðurinn er sagður hafa veðjað á tímasetningu komandi þingkosninga í Bretlandi. Lífvörðurinn starfaði innan sérstakrar deildar lögreglunnar sem þjónar konungsfjölskyldunni og öðrum háttsettum embættismönnum.
Þegar upp komst um málið var maðurinn tímabundið leystur frá störfum og hann síðar handtekinn á mánudag. Maðurinn hefur þó verið látinn laus gegn tryggingu. Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.
Fleiri hafa verið gripnir við ólöglega veðmálastarfsemi í tengslum við kosningarnar, en Craig Williams, frambjóðandi Íhaldsflokksins, varð uppvís að slíku athæfi í síðustu viku. Hann baðst í kjölfarið afsökunar, en mál hans er nú á borði bresku fjárhættuspilanefndarinnar.