Lýsti lífi kvenna í Afganistan sem þrælahaldi

Laila segir að konur hafi verið frjálsar en nú séu …
Laila segir að konur hafi verið frjálsar en nú séu þær þrælar. AFP/Atif Aryan

Ung stúlka sem býr í Afganistan, sem er undir stjórn talíbana, veitti mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna nafnlausan vitnisburð í dag þar sem hún lýsti lífi kvenna í Afganistan sem þrælahaldi. 

Vitnisburður stúlkunnar, sem kallaði sig Lailu, var tekinn upp á myndband og sýndur þegar ráðið kom saman í Genf í dag. 

Laila talaði um hvernig lífið hefði verið áður en talíbanar tóku stjórnina í landinu og sagði að þá hefðu konur og stúlkur verið frjálsar en nú væru þær þrælar. 

Afganskar stúlkur vængbrotnir fuglar

„Afganskar stúlkur eru eins og vængbrotnir fuglar,“ sagði Laila. „Þær eru enn að reyna að fljúga og vilja enn finna tækifæri til þess að fljúga eins hátt og þær geta,“ bætti hún við. 

Frá því talíbanar tóku aftur við völdum árið 2021 hafa þeir notað stranga túlkun á íslam til að skerða réttindi kvenna. Konum og stúlkum hefur verið bannað að ganga í framhaldsskóla eða háskóla, þær fá ekki að ganga um í sumum opinberum rýmum eins og almenningsgörðum og þeim er ekki leyft að sinna ákvðenum störfum. 

Laila lagði áherslu á brýna þörf fyrir alþjóðlegan stuðning. 

„Ég bið alþjóðasamfélagið, ég grátbið það, að halda áfram að styðja stúlkur og konur í Afganistan, sérstaklega til menntunar og vinnu,“ sagði Laila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert