Sagðir hafa ráðið njósnara á stefnumótasíðu

Borgarar í Karkív við útför Irynu
Borgarar í Karkív við útför Irynu "Cheka" Tsybukh í byrjun mánaðarins, sjúkraliða sem fórst í árás Rússa eftir hetjulega sjálfboðavinnu við að koma löndum sínum til aðstoðar á ögurstundu. AFP/Roman Pilipey

Úkraínsk stjórnvöld kveðast hafa handtekið þarlendan mann frá Karkív sem reynt hafi að koma viðkvæmum upplýsingum um herafla Úkraínu til móttakenda í Moskvu.

Greinir úkraínska leyniþjónustan SBU frá því að hún hafi haft hendur í hári mannsins sem rússneskir aðilar hafi fengið til samstarfs við sig gegnum stefnumótasíðu á samfélagsmiðlinum Telegram.

Gripinn glóðvolgur

„SBU gerði síma mannsins upptækan en hann hafði hann notað til að ræða við rússneskan „vin“ sinn auk þess að mynda hernaðarmannvirki,“ segir í yfirlýsingu leyniþjónustunnar sem telur rússneska herinn hafa ætlað sér að nýta myndirnar til miðunar fyrir loftárásir á Karkív.

„Útsendarar SBU gripu manninn glóðvolgan við að mynda ökutæki úkraínskra hermanna,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni sem auk þess bætir því við að maðurinn geti átt yfir höfði sér átta ára fangelsi.

Úkraínskrir saksóknarar hafa stofnað til mörg þúsund refsimála sem snúa að samvinnu við Rússa síðan innrásin í Úkraínu var gerð í febrúar 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert