Tíð ríkisstjórnar Emmanuels Macrons Frakklandsforseta er lokið að sögn Francois Hollande, fyrrverandi forseta Frakklands. Líklegt þykir að niðurstöður komandi þingkosninga verði róttækum hægri flokkum í hag.
Hollande er sósíalisti og skoraði á sínum tíma ekki hátt í skoðanakönnunum. Hann gaf því ekki kost á sér annað tímabil í kosningunum árið 2017 þegar Macron náði óvæntum sigri og splundraði hefðbundnum stjórnarflokkum bæði til hægri og vinstri.
Nú eru einungis tvö ár liðin af öðru kjörtímabili Macrons og Hollande er þess fullviss að valdatíð Macrons sé lokið.
„Macronismanum er lokið ef hann var þá einhvern tímann til. En honum er lokið,“ sagði Hollande og bætti við:
„Ég er ekki að meina að forsetatíð hans sé lokið, það er allt annað. En það sem hann kann að hafa verið fulltrúi fyrir um einhvern tíma er lokið."
Macron var endurkjörinn í embætti forseta Frakklands til fimm ára árið 2022. Það sama ár tapaði flokkur hans hreinum meirihluta á þingi. Flokkur hans hefur því haldið áfram í minnihlutastjórn og samþykkt umdeildar lagabreytingar á borð við hækkun lífeyrisaldurs og hert innflytjendalög.
Macron boðaði til þingkosninga í Frakklandi með skömmum fyrirvara í kjölfar þess að flokkur hans laut í lægra haldi gegn róttækum hægrimönnum í útgönguspám fyrir kosningar til Evrópuþings.
Nýtt þing verður kosið þann 30. júní og 7. júlí þegar seinni umferð kosninganna fer fram. Er það róttæki hægriflokkurinn RN sem er spáð sigri í kosningunum.