Bardagar í Rafah senn á enda

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir hörðum bardögum ísraelska hersins gegn vígamönnum Hamas í Rafah, í suðurhluta Gasa, næstum lokið.

Þetta sagði forsætirsáðherrann í viðtali við ísraelsku sjónvarpsstöðina Channel 14 og bætti við að hermenn yrðu fljótlega sendir á norðurlandamærin að Líbanon í „varnaðarskyni“.

„Hinn ákafi áfangi bardaganna gegn Hamas er að líða undir lok,“ sagði hann en árétti um leið að það þýddi ekki að stríðinu væri að ljúka. Einungis þessum áfanga í Rafah.

Markmiðið að ná gíslunum heim og uppræta Hamas

Til útskýringar sagði hann að þegar þessum ákafa áfanga væri lokið yrði hægt að endurskipuleggja herliðin og senda einhver þeirra til norðurs. Það væri fyrst og fremst gert í varnaðarskyni en jafnframt til þess að þeir íbúar sem hafa verið á flótta kæmust aftur heim. 

Þá sagði Netanjahú að hann myndi ekki samþykkja neinn samning sem kvæði á um að stríðinu á Gasa yrði hætt. Þessi orð hans gefa til kynna að hann sé opinn fyrir samkomulagi sem yrði til þess að einhverjir gíslar Hamas-hryðjuverkasamtakanna yrðu látnir lausir, ef ekki allir. 

„Markmiðið er að skila gíslunum heim og uppræta Hamas-stjórnina á Gasa,“ sagði hann. 

Ljóst að Ísrael muni fara með herstjórn á Gasa 

Bandarískir embættismenn hafa lýst efasemdum sínum um markmið Ísraela um að gjöreyða Hamas. Þá sagði Daniel Hag­ari, talsmaður Ísra­els­hers, á miðvikudag, að ekki væri hægt að útrýma Hamas.  

„Að halda því fram að við ætl­um að láta Ham­as hverfa er eins og að kasta sandi í augu fólks,“ sagði Hagari og útskýrði að Hamas væri hugmyndafræði. 

„Við get­um ekki út­rýmt hug­mynda­fræði.“

Spurður um ástandið á Gasa eftir stríð sagði Netanjahú að Ísraelar hefðu hlutverki að gegna á næstunni. Þá sagði hann jafnframt ljóst að Ísrael færi með herstjórn á svæðinu í fyrirsjáanlegri framtíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert