Segir að deilur við Bandaríkjamenn verði leystar fljótlega

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að deilur við Bandaríkjamenn vegna tafa á vopnum í tengslum stríðið á Gasa yrðu leystar fljótlega.

„Fyrir um fjórum mánuðum varð stórkostleg samdráttur í framboði vopna sem bárust frá Bandaríkjunum til Ísraels. Við fengum alls kyns skýringar, en grunnstaðan breyttist ekki,“ sagði Netanjahú á ríkistjórnarfundi í dag. 

Ísraelski forsætisráðherrann segir að í ljósi þess sem hann hafi heyrt á síðustu dögum þá hafi hann trú að þessi mál verði leyst í náinni framtíð.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, heldur í dag til Washington þar sem hann mun eiga viðræður við stjórnvöld um stríðið á Gasa sem hefur geisað frá því 7. október á síðasta ári.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki verið sáttur við framgang Ísraelsmanna í stríðinu vegna vaxandi fjölda látinna borgara á Gasa.

Ísraelski herinn gerði loftárásir á Gasa í dag, degi eftir að tugir þúsunda efndu til mótmælafundar í Tel Aviv gegn stjórnvöldum og til að krefjast að gíslar sem Hamas-samtökin eru með í haldi verði sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert