Tíu látnir eftir skotárásir í Rússlandi

Hér má sjá skjáskot frá rússneska fréttamiðlinum RIA Novosti sem …
Hér má sjá skjáskot frá rússneska fréttamiðlinum RIA Novosti sem sýnir hvernig lögregla hefur lokað af svæði í kringum kirkju og samkundu í Dagestan. Ljósmynd/RIA Novosti

Minnst sjö lögreglumenn, einn prestur og einn þjóðvarðliðsmaður létu lífið í árás sem gerð var á trúarbyggingar í Dagestan í Norður-Kákasus í Rússlandi í dag.

Árásirnar voru gerðar í stærstu borg Dagestan, Makhachkala, og í strandborginni Derbent, þar sem skotbardagar stóðu yfir í kvöld. Hafin hefur verið glæparannsókn vegna „hryðjuverka“ og er lögregla sögð hafa drepið fjóra byssumenn í Makhachkala.

„Í kvöld voru gerðar vopnaðar árásir á tvær rétttrúnaðarkirkjur, samkunduhús og lögreglustöð í borgunum Debent og Makhachkala,“ segir í yfirlýsingu yfirvalda.

Lögreglustjóri lést af sárum sínum 

Gajana Garíjeva, talskona innanríkisráðuneytis Dagestan, sagði alls sex lögreglumenn hafa verið drepna í árásunum og tólf særða. Síðar greindi hún frá því að lögreglustjóri á staðnum hefði látist af sárum sínum. 

Á sama tíma greindi rússneska þjóðvarðliðið frá því að einn af yfirmönnum liðsins hefði verið drepinn í Derbent og nokkrir verið særðir. 

Þá átti sér jafnframt stað árás í þorpinu Sergokal, sem er 65 kílómetrum frá Makhachkala. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Dagestan skutu árásarmenn þar á lögreglubíl og særðu einn lögreglumann. 

Þá sagði Garíjeva jafnframt að 66 ára gamall rétttrúnaðarprestur hefði verið myrtur í Derbent. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert