Á leið heim eftir þriggja mánaða prísund

Skipið Dali olli dauða sex verkamanna og gríðarlegu tjóni á …
Skipið Dali olli dauða sex verkamanna og gríðarlegu tjóni á Francis Scott Key-brúnni í Baltimore í mars síðastliðnum. AFP

Átta skipverjar skipsins sem rakst á Francis Scott Key-brúna í Baltimore eru loks á leið til síns heima eftir að hafa verið fastir á skipinu í þrjá mánuði.

Skipið sem ber nafnið Dali, fékk aðstoð við að sigla úr höfn í morgun á leið til Norfolk í Virginíu. Áætlað er að ferðin taki um 16-20 klukkustundir.

Sex verkamenn létu lífið á brúnni þegar skipið hafnaði á henni þann 26. mars síðastliðinn. Hreinsa þurfti um 50.000 tonn af brotum úr sjónum og færa skipið til hafnar áður en siglingaleiðin var opnuð á ný nú í júní.

Fjallað var um áreksturinn á brúna í fréttum mbl.is í mars.

Bandaríska strandgæslan og alríkislögreglan rannsaka slysið

Samkvæmt samningi sem náðist milli borgarstjórnar Baltimore og eigenda skipsins gátu einstaka áhafnarmeðlimir farið fljótlega eftir slysið. Þeir sem eftir voru töldust mikilvæg vitni en sátu fastir um borð í skipinu því þeir höfðu ekki leyfi til að stíga á land í Bandaríkjunum.

Nú þegar hafa farið fram yfirheyrslur en rannsóknarnefnd samgönguslysa þar í landi taldi ekki frekari ástæðu til að halda þeim lengur á skipinu.

Búist er við að viðgerðir á brúnni ljúki árið 2028 og að kostnaðurinn hlaupi á 1,9 milljörðum dala eða því sem nemur litlum 283,3 milljörðum króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert